Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skattar eiginkonu Sigmundar leiðréttir

02.10.2017 - 09:29
Mynd með færslu
Hjónin Anna Sigurlaug Pálsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Mynd: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson - Facebook
Yfirskattanefnd hefur fallist á kröfu Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um leiðréttingu á sköttum Önnu Sigurlaugar frá árinu 2011 til 2015. Skattlagningin var vegna félasins Wintris á Bresku Jómfúrareyjum.

Nefndin sendi frá sér úrskurðinn fyrir helgi. Leiðréttingin er 52.330.026 krónur og er ríkisskattstjóra einnig gert að greiða Önnu málskostnað kr. fimmhundruð þúsund. Anna fór fram á að ríksskattstjóri greiddi 2,1 milljón í málskostnað. 

Anna Sigurlaug fór fram á það í maí í fyrra að ríkisskattstjóri leiðrétti skatta hennar á árunum 2011 til 2015 vegna félasins Wintris á Bresku Jómfúrareyjum. Það var eftir að fjallað var um Wintris í umfjöllun um Panamaskjölin. Hún og Sigmundur gerðu samkomulag við ríkisskattstjóra um málið en kærðu hluta þess til yfirskattanefndar. Þar var deilt um gengishagnað eða gengistap af starfsemi Wintris

Í úrskurði yfirskattanefndar segir að Anna hafi lagt félaginu Wintris til lánsfé til fjárfestinga á árinu 2008. Eignir félagsins væru hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóðum, markaðsverðbréfum og innlánum í banka. Eignirnar hefðu verið taldar fram til skatts sem þær væru eignir Önnu og tekjur af þeim taldar fram sem fjármagnstekjur hennar. 

Í Fréttablaðinu í dag er grein eftir Sigmund Davíð þar sem kemur fram að eiginkona hans hafi þegar fengið endurgreiðslu vegna ofgreiddra skatta og að auki muni uppsafnað tap dragast frá á næstu árum. 
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV