Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Skar út myndir í kletta á Stöðvarfirði

25.06.2018 - 09:37
Steinskeri frá New York vann í tvo og hálfan mánuð við að skera út lágmyndir í kletta á Stöðvarfirði. Hann segir að því fylgi mikil ábyrgð og því sæki hann myndefnið í mannlíf og náttúru á staðnum.

Kevin Sudeith kom til landsins í byrjun apríl og fékk allar tegundir af veðri við vinnu sína. Verkin skar hann út í Hagahrauni innan við Lönd í Stöðvarfirði í hvarfi frá þjóðvegi eitt. „Að búa til eitthvað eins varanlegt eins og þennan steinútskurð fylgir sú ábyrgð að gera eitthvað sem þjónar samfélaginu og að velja réttu myndirnar er hluti af því,“ segir Kevin.

Verkin sýna íslenska fugla og stærsta myndin reiðmann á tölti. Hann útbjó einnig gúmmímót af því verki. Hann málar í útskurðinn með málningu sem leysist upp í vatni. Tilgangurinn er að að búa til eins konar eftirprentanir. Hann hrærir pappírsmassa á staðnum, mótar hann í arkir og þrykkir á lágmyndirnar. Útkoman verður færanleg útgáfa af listaverkunum. „Markmiðið með verkunum er að búa til eitthvað sem samfélagið tengir við og þetta er eins konar þjónusta. Fólk horfir á þetta og sér eigið líf, í mínu tilfelli skrifað niður til langs tíma. Að vita að maður hafi sést og verið tekið eftir manni er hughreystandi og það er tilgangur listarinnar, að minnsta kosti eins og ég iðka hana,“ segir Kevin.

Hann fékk leyfi frá bæði landeiganda og sveitarfélaginu. „Ég vinn aðeins þar sem mér er boðið og verkefnið hófst á því að fá leyfi. Ég fékk líka leiðbeiningar um hvernig ætti að biðja álfa og huldufólk um leyfi til að vinna. Ég hef mínar eigin kenningar um það þá sem ekki sjást og ég vona að þeir séu ánægðir með afraksturinn. Ég gerði eins og mér var sagt og bað um leyfi og ég vona að það hafi verið fullnægjandi.“

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV