Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skapa ítrekað hættu á 102 stöðum við hringveginn

29.01.2020 - 19:23
Mynd: RÚV / RÚV
Gera þarf mun meira í því að auka umferðaröryggi segir forstjóri Vegagerðarinnar. Skortur á fjármagni sé hindrunin. Ferðamenn stoppa ítrekað bíla sína á ríflega hundrað stöðum á hringveginum þar sem engin bílastæði eru og skapa þannig hættu.

Erlendir ferðamenn hafa sett mark sitt á hringveginn. Margir hafa mætt ferðamönnum á gangi á veginum, bílum lagt í kanti eða bílaleigubíl sem stöðvaður er skyndilega á miðjum vegi. Vegagerðin efndi til fundar um áningastaði í dag.

„Við höfum miklar áhyggjur af því þegar ferðamenn eru á veginum. Það skapar slysahættu. Þess vegna höfum við áhuga á því að átta okkur á því hvað er heppilegt að sé af áningastöðum og hvar þeir séu best komnir. Þá er má kannski segja að það sé gestrisni í því að það séu góðir og öryggir staðir til að njóta landslagsins og til þess að taka þær myndir sem menn gjarnan vilja taka,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

Staðirnir við hringveginn eru ófáir sem ferðamenn staldra við.
 

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV

„Ég fór hringveginn og skráði 102 staði. En þeir eru í rauninni fleiri því oft eru þetta vegkaflar sem eru í rauninni með sama útsýni. Með góðum áningastað og merkingum væri hægt að smala þessu fólki af þessum vegkafla inn á öruggari stað til myndatöku,“ segir Sóley Jónasdóttir, verkefnisstjóri á hönnunardeild Vegagerðarinnar.

Sóley segir að á Suðurlandi, í Eldhrauni og við Mývatn og víðar þurfi að ráðast í úrbætur. Það skapi bæði hættu þegar ferðamenn stoppi í vegkanti og valdi skemmdum.

„Axlir, vegaxlir fletjast út og vegkantar og klæðning brotnar og þá molnar úr veginum. En það eru alltaf nýjar áskoranir. Eins og í Brekkukoti undir Eyjafjöllum. Það eru orðin hefð núna að fólk skilur eftir brjóstahaldara á girðingunni og þetta er langur vegkafli og umferðin breytist gríðarlega þarna. Fólk hægir á sér, stoppar og vill ná mynd,“ segir Sóley.

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV

En það er ekki síður veðrið og vetrarfærð sem veldur hættu í umferðinni. Sex alvarleg slys hafa orðið í umferðinni í janúar.

Er ekki eitthvað sem þarf að breyta til að reyna að sporna gegn þessu?

„Ég held að við séum að takast á við þá gríðarlegu áskorun að umferð hefur aukist um 50% frá 2013 og mikið af því eru ferðamenn. Það er alveg ljóst að við hjá Vegagerðinni erum að nýta það fé sem við höfum í svokallaðar umferðaröryggisaðgerðir. Að sjálfsögðu þarf að gera miklu meira í því því við erum að fá allt aðra notkun á þetta vegakerfi heldur en upphaflega stóð til,“ segir Bergþóra.

Hvað er það sem stoppar?

„Það í sjálfu sér fyrst og fremst fjármagn sem stoppar,“ segir Bergþóra.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV