Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skammarlegar tölur fyrir okkur

Mynd: Skjáskot / RÚV
Ísland ver hlutfallslega mun minna fjármagni til heilbrigðisþjónustu en önnur norræn lönd. Íslendingar borga þó minna fyrir þjónustuna úr eigin vasa en aðrir Norðurlandabúar. Formaður velferðarnefndar Alþingis segir tölurnar skammarlega lágar.

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, birti nýverið tölur yfir útgjöld aðildarríkja til heilbrigðismála. Samkvæmt úttektinni ver Ísland 8,3 prósentum af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála og er það undir meðaltali OECD ríkja. Raunar ver 21 ríki OECD hærra hlutfalli til málaflokksins en Ísland, þar með talið öll hin norrænu löndin. Í Svíþjóð er hlutfallið 11 prósent, 10,5 prósent í Danmörku, 10,2 prósent í Noregi og 9,1 prósent í Finnlandi.

Áherslan á að lækka beinan kostnað

Þetta hlutfall hefur aukist lítillega undanfarin ár en Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG og varaformaður velferðarnefndar, segir að allir hljóti að geta sammælst um að þetta hlutfall eigi að vera hærra og nær því sem gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndum.

 „Við notuðum hluta af uppsveiflunni núna eftir að þessi ríkisstjórn tók við til þess að lækka beinan kostnað notenda og það virðist hafa tekist ágætlega þegar borið er saman við hin Norðurlöndin en við eigum eftir að komast lengra í þessum þáttum er varðar beinum útgjöldum til heilbrigðismála.“

Vísar Ólafur þar í niðurstöður sömu úttektar sem sýnir að Íslendingar greiða minna fyrir heilbrigðisþjónustu úr eigin vasa en íbúar annars staðar á Norðurlöndum. Íslendingar greiða að meðaltali 96 þúsund krónur fyrir þjónustuna á ári en Finnar mest, 128 þúsund krónur.

Ber ekki vott um kænsku

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður velferðarnefndar, segir samanburðinn við önnur norræn lönd sláandi. „Mér finnast þetta skammarlegar tölur fyrir okkur og ber ekki vott um mikla kænsku því það er mjög dýrt að reka ekki gott heilbrigðiskerfi. Og fjármálaráðherra var nokkuð skýr í fjárlagaumræðunni um að það væri eitthvað að í slíku kerfi sem tæki stöðugt meira við og var þá að tala um Landspítalann. Ég segi að það sé eitthvað að ríkisstjórn sem ver ekki nægilegum fjármunum í heilbrigðismál. Því það er mjög dýrt á endanum.“