Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Skálað í freyðivíni í Ráðherrabústaðnum

Mynd: Jón Þór Víglundsson / RÚV
Fulltrúar Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins voru á fundum í Ráðherrabústaðnum í dag, til klukkan sex. Í lokin stóðu aðeins eftir þau mál sem formennirnir þrír ætla að útkljá sín á milli og verður að líkindum gert á morgun. Að fundahöldum loknum, og áður en fólk hélt heim á leið, var skálað í freyðivíni fyrir þá sem lokið höfðu störfum í viðræðunum - væntanlega til marks um þann árangur sem náðst hefur í viðræðum flokkanna um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, sagði í hádegisfréttum RÚV í dag að það myndi skýrast í dag eða á morgun hvort af ríkisstjórnarmyndun yrði. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í kvöldfréttum að stjórnarmyndunarvinnan væri mjög langt komin en að ennþá standi nokkur atriði út af sem formennirnir þurfa að útkljá sín í milli.

Nái flokkarnir saman um ríkisstjórnarmyndun á morgun er útlit fyrir að viðeigandi flokksstofnanir verði kallaðar saman á næstu dögum til að ræða ríkisstjórnarmyndunina. Þing kann þá að koma saman eftir næstu helgi.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV