Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skaftafellsjökull hopar um 50-100 metra á ári

Mynd: Guðmundur Ögmundsson / Guðmundur Ögmundsson
Skaftafellsjökull hopar um 50 til 100 metra á ári og hefur hopað um 850 metra síðan árið 1995. Guðmundur Ögmundsson, þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði, hefur árlega tekið ljósmynd af jöklinum frá sama sjónarhorni. Myndirnar sýna vel hve mikið jökullinn hefur hopað og þynnst.

Guðmundur segir að tilviljun hafi ráðið því að fór að taka þessar myndir árlega. Hann hafi eignast nýja aðdráttarlinsu á myndavélina sína 2011 eða 2012 og farið að taka myndir úti á aurunum fyrir framan Skaftafell. „Veturinn eftir fór ég að skoða myndirnar og sá þessa og datt í hug að það væri áhugavert að taka aðra mynd á sama bletti. Ég bjóst ekki við miklu en strax ári síðar var sláandi útkoma,“ sagði Guðmundur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Hann segir að þó verði að hafa í huga að árið 2011 hafi verið eldgos í Grímsvötnum. Þaðan hafi komið örlítil aska yfir jökulinn. „Það hraðar bráðnuninni ofan frá. Hann þynnist hraðar því að askan var ekki nógu þykk til að einangra og það flýtir ferlinu.“

Guðmundur telur að myndirnar staðfesti það sem verið er að segja um bráðnun jökla vegna loftslagsbreytinga. Veður og tíðarfar sé allt öðruvísi en áður fyrr.

Myndirnar eru nýttar til fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga fyrir skólahópa sem heimsækja svæðið. „Og þá tókum við þetta með þegar við gengum að jöklinum og vorum að sýna þeim og það er allt á sama veginn varðandi viðbrögðin, þetta er mjög sláandi.“

Á dögunum setti Guðmundur þessa færslu á Facebook. Hún hefur vakið mikla athygli og verið deilt yfir 300 sinnum. Á myndunum má sjá hvernig jökullinn hefur breyst síðan árið 2012. Hann setti sams konar færslu á Facebook árið 2014 og segir viðbrögðin nú miklu meiri en þau voru þá. Það sé án efa vegna mikillar vitundarvakningar í loftslagsmálum.