Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skækjur, landshornafólk og ruslaralýður í síldinni

Mynd: Siglufjörður – saga af bæ / Siglufjörður – saga af bæ

Skækjur, landshornafólk og ruslaralýður í síldinni

05.01.2020 - 12:52

Höfundar

„Hvergi á landi voru mun íslenskri tungu og þjóðerni vera jafn átakanlega misboðið eins og á Siglufirði um síldarveiðitímann,“ var skrifað í Reykjavíkurblaðið Lögréttu árið 1915.

Egill Helgason fjallar um sögu kaupstaðarins í Siglufirði – sögu bæjar sem hefur göngu sína á RÚV á sunnudagskvöld. Það voru miklir umbrotatímar í íslensku þjóðfélagi þegar Norðmenn tóku að venja komur sínar á Siglufjörð til að verka síld. Bærinn fylltist af norskum sjómönnum og sumum fannst þeir helst frekir til kvenna og þótti nóg um atganginn. Þar spilaði þó líklegast inn talið um Siglufjörð sem Sódómu, að vinnufólk tók sig upp úr sveitunum sem lögðust í eyði og sóttu í vinnuna og peningana í sjávarplássunum; aldagömlum þjóðfélagsháttum var riðlað á stuttum tíma. Pétur Ottesen þingmaður Sjálfstæðisflokksins talaði til að mynda um spjöll sem orðið hefðu á hugsunarhætti fólksins vegna útlendrar ómenningar. Hann kallaði síldavinnslufólkið landshornafólk og ruslaralýð. Þá fóru konur mjög halloka úr þessari umræðu og talað var um þær sem fóru að vinna á Siglufirði eins og skækjur.

„Þeir eru náttúrulega að missa frá sér verkafólkið sem þeir höfðu haft um aldir. Vinnuhjúin sem þeir höfðu haft fyrir lág laun,“ segir Örlygur Kristfinnsson myndlistarmaður sem er sérfróður um sögu svæðisins. „Þeir gátu sent vinnumenn sína í verstöðvar og þeir komu aftur með launin sín og afhentu húsbændum sínum. Svona var þetta en það losna tökin á verkalýðnum upp úr aldamótunum 1900, fólkið streymir í bæina þar sem fólk hafði tiltölulega mikla vinnu og fékk greitt í peningum. Það voru stóru umskiptin, finna frelsið og sjálfstæðið sem alla dreymir um.“

Útgerðarmaðurinn Ólafur Tynes sem hafði sest að á Íslandi svaraði þessum röddum á sínum tíma á þennan hátt: „Var ekki von, að gömlum afturhaldskurfum og ríkum fjárplógsmönnum, sem hingað til höfðu augðast á striti hjúa sinna, sem þeir höfðu eins og hálfgerð mansmenn, þætti nærri sér höggvið er fólkið, aðaltekjulind þeirra, sneri við þeim baki og leitaði þangað er meiri var arðsvonin og kaupgreiðslan tiltölulega örugg.“

Fyrsti þáttur af Siglufirði – sögu bæjar er á dagskrá RÚV á sunnudagskvöld klukkan 20:05.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Kirkjuklukkur leika tónlist

Umhverfismál

Dúfurnar ómissandi hluti af mannlífinu

Bókmenntir

Hallgrímur hækkar upp í ellefu

Bókmenntir

Hvernig Ísland fór úr engu í eitthvað