Skaðbrenndust í eldsvoðanum í Mávahlíð

Mynd: Þórunn Alda Gylfadóttir / Þórunn Alda Gylfadóttir
Ungt par sem skaðbrenndist í eldsvoða í Mávahlíð í Reykjavík í október hefur farið í fjölda aðgerða hér á landi og í Svíþjóð. Maðurinn hlaut annars og þriðja stigs brunasár á rúmlega helmingi líkama síns, en konan á um 35%. Þau eru bæði úr lífshættu en eiga mikla endurhæfingu fyrir höndum. Talið er að eldurinn hafi breiðst út um íbúðina þegar logandi olía helltist úr potti.

Mikill eldur kom upp í kjallaraíbúð við Mávahlíð aðfaranótt miðvikudagsins 23. október. Þrennt var í íbúðinni. Einn þeirra var eigandi íbúðarinnar, sem komst út af sjálfsdáðum með minni háttar áverka. Hin tvö sem voru í íbúðinni voru þau Rahmon Anvarov, sem leigði þar herbergi, og kærasta Rahmons, Sólrún Alda Waldorff. 

„Þau voru sofandi og mér skilst að þegar að þú ert sofnaður þegar svona kemur fyrir, þá er reykurinn það eitraður að hann svæfir þig dýpra þannig að þú vaknar ekkert,“ segir Þórunn Alda Gylfadóttir, móðir Sólrúnar.

Slökkviliði tókst að lokum að ná parinu út um glugga á íbúðinni. En þá var skaðinn skéður. Bæði Rahmon og Sólrún brenndust mjög alvarlega. Sólrún var flutt á brunadeild sjúkrahússins í Linköping í Svíþjóð, þar sem bæði hún og foreldrar hennar hafa verið síðan 25. október. 

„Og í eiginlega þrjár vikur var henni haldið sofandi og hún var í bráðri lífshættu í langan tíma,“ segir Þórunn.

Nú horfir hins vegar til betri vegar því Sólrún er úr lífshættu og er komin til meðvitundar. Hún á þó eftir að fara í fjölda aðgerða.

„Þær ganga út á að færa heilbrigða húð yfir á svæði sem eru brunasvæði. Þegar hún kom hingað út á öðrum degi, þá var búið að skilgreina að 35% af hennar líkama var með öðrum og þriðja stigs bruna,“ segir Þórunn. „Það er sem sagt andlit, og háls og niður á bringu og vinstri hliðin, það eru svona verstu svæðin,“ segir Þórunn.

Jól í Svíþjóð

Aðeins er hægt að sinna þremur sjúklingum með alvarleg brunasár í einu á gjörgæslu hér á landi, og vegna álags þar var Sólrún flutt til Svíþjóðar. Ákveðið var að flytja hana en ekki Rahmon vegna þess að hún var með mikla brunaáverka í lungum.

„Hann var með svolítið meiri bruna á líkama. Hann var með yfir 50% af sínum líkama með annars og þriðja stigs bruna. En lungun í honum voru ekki eins illa farin.“

Rahmon er einnig úr lífshættu, en er búinn að fara í fjölda aðgerða og á fleiri eftir. 

Þórunn vonar að þau komist heim fyrr en síðar, en gerir sér grein fyrir að það geti dregist.

„Já við gerum alveg ráð fyrir því og erum alveg undirbúin að jólin verði í Svíþjóð þetta árið,“ segir hún.

Málið er í rannsókn en grunur er um að eldurinn hafi kviknað út frá potti. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er talið að leigusalinn hafi verið að steikja mat í olíu, kviknað hafi í olíunni og maðurinn brugðist við með því að reyna að hlaupa með pottinn út. Við það hafi hann misst pottinn þannig að brennandi olía fór út um allt og eldhaf breiddist út. 

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að rétt viðbrögð við slíkum eldi séu að kæfa eldinn með eldvarnarteppi. Sé slíkt teppi ekki til staðar megi reyna að nota pottlok, en það sé þó aldrei eins öruggt. Aðalatriðið sé þó að koma sér út úr húsi og hringja í slökkviliðið. 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi