Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Skaðabótaábyrgð möguleg í eineltismálum

07.12.2011 - 17:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Lagalega skilgreiningu á einelti vantar og lögfesta þarf barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, segja þrír fræðimenn sem hafa unnið að þverfaglegri greiningu á einelti meðal íslenskra barna.

Þrír meistaranemar tóku höndum saman og gerðu þverfaglega greiningu á einelti á íslenskum börnum út frá sjónarhóli lögfræði, félagsfræði og kennslufræði. Daníel Reynisson rannsakaði lögfræðilegu hliðina á þessu máli í meistararitgerð sinni.

Hagnýt skýrsla
„Við reyndum að hafa þetta svolítið hagnýtt þannig að aðilar sem fara með þessi mál geti þá hugsanlega nýtt sér eitthvað af þessum tillögum og farið með þær lengra,“
 
Niðurstaða þeirra Daníels Reynissonar lögfræðings, Hjördísar Árnadóttur félagsráðgjafa og Sjafnar Kristjánsdóttur, menntunar- og uppeldisfræðings, er sú, að réttindi barna séu að mörgu leyti vel tryggð í íslensku samfélagi. Þó vanti bæði lögfræðilega skilgreiningu á fyrirbærinu og mun meiri umfjöllun um einelti og ráð við því í námsefni íslenskra kennaranema.

Skaðabótaábyrgð hugsanleg
„Þá má segja að barn sem er lagt í einelti að það sé verið að brjóta á einu eða fleirri mannréttindum þess og ein af tillögum okkar sem ég tel mjög mikilvæga er að lögfesta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hann myndi þá fá miklu sterkari stöðu, þar eru mannréttindi barna sérstaklega vernduð og þá væri hægt að beita þeim ákvæðum fyrir dómstólum til að mynda. Sérðu þá fyrir þér að börn geti kært einelti? Já, í minni rannsókn skoða ég til dæmis hvort að skaðabótaábyrgð væri möguleg og komst að því að í mörgum tilfellum eru skilyrði fyrir hendi en það hefur bara aldrei látið reyna á það,“ sagði Daníel að lokum.