Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sjúkraflugvél fór í gæsager og stórskemmdist

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Sjúkraflugvél Mýflugs lenti í gæsageri á flugbraut á Reykjavíkurflugvelli í dag. Flugvélin var í flugtaki á leið til Akureyrar með tvo sjúklinga sem átti að flytja norður. Flugvélin stórskemmdist en flugmennirnir náðu að stöðva hana á flugbrautinni. Áhöfnin, sjúklingar og sjúkraflutningamaður sluppu ómeidd en var nokkuð brugðið.

Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, segir að flugvélin sé mikið skemmd. Allir séu þó heilir á húfi. Sjúklingarnir sem átti að flytja aftur til Akureyrar eftir að hafa fengið læknisþjónustu í Reykjavík, komast þó ekki aftur heim fyrr en á morgun.

Flugvélin sem skemmdist í dag er aðalflugvélin í sjúkraflugi félagsins. „Vélin verður frá í viku, hálfan mánuð.“ Hann segir erfitt að meta hversu mikið tjónið sé en það kosti þó milljónir að lagfæra skemmdirnar. Önnur flugvél félagsins var strax virkjuð til að sinna sjúkraflugi í stað þeirrar sem skemmdist.

Flugvélin hristist allt í einu

Vignir Smári Vignisson var í flugvélinni þegar hún lenti í gæsagerinu í dag. Hann fylgdi Melkorku Gunnlaugsdóttur, konu sinni, til aðgerðar í Reykjavík í morgun og var á heimleið ásamt henni og öðrum sjúklingi. „Ég sit í venjulegu flugsæti og konan liggur á bekk ásamt öðrum sjúklingi. Við erum komin út að enda flugbrautarinnar þegar flugvélin hristist allt í einu og fær á sig mikið högg,“ segir Vignir. Flugmennirnir brugðust hratt við og stöðvuðu flugvélina.

Þegar flugvélin var stöðvuð og fólk steig út blasti við blóð, innyfli og kjöt á vængjum og skrokki flugvélarinnar.

„Okkur brá smá en þetta var ekkert hræðilegt,“ segir Vignir Smári. Hann segir að vel hafi verið hugsað um sig og sjúklingana, þau hafi verið í höndum fagmanna. Niðurstaðan var sú að skömmu eftir að flugvélin átti að fara í loftið með fólkið til Akureyrar var kallað aftur á sjúkrabílana sem fluttu sjúklingana á flugvöllinn. Nú fluttu þeir fólkið aftur á sjúkrahús þar sem fólkið dvelur þar til á morgun.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

Vill aðgerðir gegn fuglum

Leifur hjá Mýflugi segir að grípa verði til aðgerða við Reykjavíkurflugvöll til að koma í veg fyrir hættu af fuglum. „Ég hef verið ófeiminn við að gagnrýna Isavia fyrir að láta skrifa skýrslur um gæs við flugvöllinn en eyða ekki sömu peningum í að losna við fuglinn,“ segir Leifur. Hann segir að eina leiðin til að losna við fuglinn frá flugvellinum sé að skjóta hann. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV