Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sjöttu hver lög bein afleiðing EES-samnings

01.10.2019 - 14:31
Innlent · EES · Stjórnmál
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Rúmlega sjötta hver lagasetning frá Alþingi síðasta rúma aldarfjórðunginn er bein afleiðing af aðild Íslands að samningnum um evrópska efnahagssvæðið. Það eru 485 lög af 3.071 frá vetrinum 1992 til 1993. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu um EES-samninginn og áhrif hans á íslenskt samfélag. Skýrsluhöfundar taka fram að mikil hætta væri á einangrun, stöðnun og afturför í þjóðlífinu öllu ef Íslendingar stæðu utan EES og vildu frekar nota heimasmíðaðar reglur.

Skýrslan er unnin að beiðni Alþingis og var um það bil ár í vinnslu.

Sextán prósent allrar lagasetningar á Íslandi síðustu 27 árin er því bein afleiðing aðildarinnar að EES-samningnum. Mjög breytilegt er eftir árum hversu hátt hlutfallið er og hversu mörg lög eiga rætur að rekja til EES-samstarfsins.

Skýrsluhöfundar segja að heimasmíðaðar reglur í stað EES-reglna ykju mjög hættu á einangrun, stöðnun og afturför. Það á einkum við í efnahags- og atvinnulífi og sérstaklega á þeim sviðum þar sem tæknivæðing hefur haft hvað mest áhrif.

Undanþágur og gullhúðun

Ísland hefur samið um 26 undanþágur í ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Algengast er að undanþágurnar snúi að hagskýrslugerð (átta), tæknilegum reglum (sex) eða orkumálum (fjórar). Nýjustu undanþágurnar tengjast innleiðingu þriðja orkupakkans.

Viðmælendur starfshópsins gagnrýndu nokkuð svokallaða gullhúðun, að mál sem falla undir EES-samninginn séu innleidd með strangari skilyrðum hér heldur en annars staðar á EES-svæðinu. Þannig gildi strangari reglur um íslensk fyrirtæki en keppinauta þeirra erlendis.

40 þúsund hafa tekið þátt í Erasmus+

Um 40 þúsund Íslendingar hafa tekið þátt í Erasmus+, evrópskri samstarfsáætlun í menntamálum. Skýrsluhöfundar segja hafið yfir allan vafa að EES-samstarfið hafi eflt og styrkt bæði menningarstarfsemi og menntastofnanir á Íslandi meira en nokkur hafi séð fyrir. „[E]ngin þjóð hefur af jafn miklum þrótti nýtt sér tækifærin til margvíslegra menningarlegra samskipta á sviði lista, rannsókna, kennslu og náms og Íslendingar.“

Í skýrslunni er vísað til þess að EES-samningurinn hefur margvísleg áhrif á líf fólks, svo sem með frjálsri för einstaklinga um evrópska efnahagssvæðið. „Að svipta borgarana þessum réttindum í nafni fullveldisréttar ríkja má líkja við öfugmæli.“

Atvinnurekendur og launafólk lýsa ánægju

Atvinnurekendur og forsvarsmenn launafólks lýstu ánægju með reynsluna af EES-samningnum. Atvinnurekendur fögnuðu betri aðgangi að evrópskum mörkuðum og verkalýðsforkólfar fögnuðu því að hagur og réttarstaða launafólks hefði batnað með samningnum.

Skýrsluhöfundar geta þó um togstreitu milli ríkja í norðri og suðri að því er varðar réttindi verkalýðsfélaga og launafólks. Þeir hvetja til þess að norrænt lagasamstarf verði virkjað til að hafa meiri áhrif á mótum löggjafar Evrópusambandsins.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV