Sjónvarpsrétturinn mögulega seldur til útlanda

Mynd: Mummi Lú / RUV

Sjónvarpsrétturinn mögulega seldur til útlanda

07.02.2020 - 16:33
Birgir Jóhannsson segir að auka megi tekjur íslenskra félagsliða með því að selja sjónvarpsrétt til útlanda. Birgir var nýverið ráðinn framkvæmdastjóri Íslensks toppfótbolta, ÍTF, hagsmunasamtaka félaga sem reka lið í efstu deildum karla í knattspyrnu. Hann segir að stór verkefni séu framundan hjá samtökunum sem sjá m.a. um markaðssetningu efstu deilda karla og kvenna.

Á undanförnum árum hafa rekstrarerfiðleikar íslenskra félagsliða verið áberandi í umræðunni og Birgir segir mikilvægt að huga vel að tekjumöguleikum félaganna. Þau hafi í raun meiri aðkomu að tekjuöflun deildanna í gegnum ÍTF sem sér nú um að selja markaðsréttindi fyrir efstu tvær deildirnar í stað KSÍ. 

Í skýrslu sem KSÍ gaf nýverið út kemur fram að tekjur af réttinum til að sjónvarpa frá íslensku deildinni séu mun minni en annars staðar á Norðurlöndunum. Núverandi samningur fyrir efstu deild rennur út eftir tímabilið 2021 en Birgir segir að mögulegt sé að selja réttinn út fyrir landsteinana og ÍTF muni taka við tilboðum frá öllum. 

„Erlendar streymisveitur hafa verið að kaupa réttinn af ensku úrvalsdeildinni. Viaplay var að kaupa sjónvarpsréttindin að ensku úrvalsdeildinni á Norðurlöndunum. Allir þessir möguleikar gætu alveg komið inn til okkar."

Fá veðmálafyrirtæki að borðinu

Íslenska deildin hefur notið vaxandi vinsælda á erlendum veðmálasíðum. Birgir telur að það styrki möguleika deildarinnar á tekjuöflun enda spili fáar þjóðir yfir sumarið. Hann telur að þetta auki tekjumöguleika efstu deilda hérlendis þar sem íslenskar deildir eru svokallaðar hreinar deildir þar sem lítið er um veðmálasvindl.

Birgir segir það verðugt verkefni að KSÍ og ÍTF berjist gegn því að veðmálasvindl festi rætur í íslenskri knattspyrnu en vill opna á þann möguleika að veðmálafyrirtæki fái að auglýsa starfsemi sína og styrkja íslensk knattspyrnulið. 

„Þetta er viðkvæmt mál og þyrfti að skoða í stóru samhengi. Maður sér hvað það er mikið verið að stunda veðmál og fyrirtækin sem eru að gera þetta á netinu skila ekki neinu til samfélagsins. Ég þykist vita að þau séu tilbúin til þess en eiga ekki möguleika á því."

Aðspurður segist Birgir vita til þess að íslenskum félögum hafi boðist stórir samningar frá þessum fyrirtækjum. Hvert félag verði að meta hvort taka eigi slíkum tilboðum út frá eigin gildum. 

Ég held að við megum ekki hræðast það sem framtíðin ber í skauti sér. Þetta er svona erlendis og ég held að við ættum að fagna því ef þessi möguleiki kæmi upp og þá ættum við að vera tilbúin að skoða það með opnum hug. Lengjan hefur verið að styrkja íslenskar íþróttir mjög myndarlega og ég fagna samkeppni í þessu eins og öllu öðru."

Framkvæmdarstjóri ÍTF
 Mynd: RÚV
Birgir Jóhannsson

Nauðsynlegt að lengja mótið

Birgir ræddi einnig um þann möguleika að lengja íslandsmótið í fótbolta. En mikill einhugur virðist vera á meðal félaga að lengja mótið, hinsvegar á eftir að finna út hvaða leið er best til þess fallinn að lengja mótið og fjölga liðum. Tímabilið sem kæmi til greina er frá lok mars og til lok októbers að sögn Birgis. 

Fleiri leikir gefa þér fleiri viðburði til að selja, þú ert að fá betri nýtingu á þínu starfsfólki, þú ert að stytta þetta undirbúningstímabil sem er rosalega langt á Íslandi og leikmönnum finnst þetta leiðinlegt. Það finnst öllum það leiðinlegt, það eru allir að bíða eftir að mótið hefjist. Þetta er líka auka kostnaður, það kostar hver leikur, hann kostar sitt."

Birgir segir að lenging Íslandsmótsins sé einnig nauðsynleg til þess að halda í við aðrar deildir í Evrópu. 

Til þess að halda í við félög í Evrópu verðum við að gera eitthvað, við getum ekki bara staðið hjá og gert ekki neitt."

Birgir leggur áherslu á að ÍTF sé með vöru sem sé fótbolti og nauðsynlegt sé að skapa umgjörð sem gerir fótboltann samkeppnishæfan við aðrar skemmtanir. Um leið og varan verður betri er orðið auðveldara að selja sjónvarpsréttinn á hærra verði. 

Þú ert komin í samkeppni við svo mikið. Börn í dag eru með YouTube, eru með Netflix, þú ert með Playstation, þú ert með alla þessa afþreyingarmöguleika í hendinni. Við erum að keppa við það að yngja áhorfendahópinn okkar, fá fleiri á leiki og við þurfum að finna leiðir til þess."

Birgir segir að öll félög vilja bæta sig varðandi aðstöðumál og upplifun áhorfenda og í dag sé mikið samstarf á milli félaga, m.a. vegna ÍTF. Ef eitt félag selur vel af einni vöru geta önnur félög gert það sama. Það er ekki verið að keppa um sama kúnna. 

Varðandi fjármál íslenskra liða segir Birgir að félög verði að fá ákveðin slaka til að elta drauma um riðlakeppni evrópudeilda.

Það má ekki gleymast í umræðunni að það eru rosalegir peningar í Evrópukeppninni og við verðum að geta gefið félögum þann slaka að geta reynt að fara þangað, auðvitað innan skynsamlegra marka. Það má ekki vera þannig aðhald að þessi draumur sé bara úti, þá erum við á miklum villigötum. Við verðum að gefa félögunum það frelsi að þau geti og eigi að reyna að komast eins langt og þau geta innan skynsamlegra marka. Samt á sama tíma að halda uppi ákveðnu aðhaldi í rekstrinum."