Sjómannsmynd fór „fyrir brjóstið“ á Hjörleifi

15.08.2017 - 22:22
Mynd með færslu
Svona lítur sjávarútvegshúsið út - án sjómannsmyndarinnar. Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Myndin af sjómanninum sem prýddi Sjávarútvegshúsið við Skúlagötu í nærri tvö ár fór „mikið fyrir brjóstið“ á Hjörleifi Guttormssyni, fyrrverandi ráðherra, sem býr við Vatnsstíg og hann sendi nokkra pósta á byggingafulltrúa Reykjavíkurborgar vegna hennar. Þetta er meðal þess sem hægt er að lesa úr tölvupóstsamskiptum um sjómannsmyndarmálið sem fréttastofa fékk aðgang að í dag.

Hjörleifur vildi ekkert tjá sig við fréttastofu þegar eftir því var leitað og hann upplýstur að fréttastofa hefði samskiptin undir höndum.  

Fréttablaðið fjallaði í morgun um sjómannsmyndina, sem var máluð í tengslum við tónlistarhátíðina Iceland Airwaves og var hluti af verkefni sem nefndist Veggjaskáldskapur.  Grímur Atlason, forsvarsmaður Airwaves, vakti fyrst máls á þessu á Facebook-síðu sinni á sunnudag. 

Í frétt Fréttablaðsins vildi enginn taka ábyrgð á þessum verknaði - að mála yfir listaverkið. Borgin benti á ráðuneytið og ráðuneytið á borgina. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegsráðherra, var ekki hlátur í huga þegar hún ræddi þetta við blaðið en henni fannst að myndin hefði mátt vera á sínum stað. „Mér finnst þetta bara verulega vanhugsað og enn verra ef menn eru ekki að virða höfundarrétt og rétt listamanna.“ 

Fréttablaðið kvaðst hafa heimildir fyrir því að Hjörleifur Guttormsson, sem býr í Skuggahverfinu, hefði verið einn „háværasti andstæðingur“ myndarinnar. Miðað við þau gögn sem fréttastofa hefur undir höndum sendi Hjörleifur nokkra tölvupósta til byggingafulltrúa borgarinnar og spurðist fyrir um hvenær myndin yrði fjarlægð.

Í lok maí sendi hann til að mynda fyrirspurn í þremur liðum til Nikulásar Úlfars Mássonar, byggingafulltrúa, og vildi meðal annars fá að vita hvenær þess væri að vænta að „þessi mynd verði fjarlægð af húsinu.“

Nikulás svaraði tveimur dögum seinna og upplýsti Hjörleif að ekki hefðu verið gefin upp tímamörk á því hvenær listaverkið yrði fjarlægt. „En fyrirspurn þín gefur tilefni til að skoða það nú.“

Í júlí var ráðherranum fyrrverandi farið að leiðast þófið enda bólaði ekkert á því að myndin væri fjarlægð.

Samkvæmt tölvupósti sem hann sendi byggingafulltrúanum í lok júlí hafði hann samband við húsvörð húsfélags Sjávarútvegshússins og spurðist fyrir um myndina. Í póstinum segist Hjörleifur hafa fengið þær upplýsingar frá húsverðinum að í fyrrahaust hafi hússtjórn Sjávarútvegshússins fallist á að verkið yrði málað tímabundið á húsgaflinn gegn því skilyrði að það yrði fjarlægt innan árs. „Vinsamlega staðfestið að við þetta verði staðið.“

En HJörleifur fékk enga staðfestingu. Um miðjan september sendi hann aftur póst, nú á formann borgarráðs, þar sem hann óskaði staðfestingar að umrædd risamynd á austurvegg Sjávarútvegshússins verði fjarlægð fyrir haustið 2016, eins og tilskilið var af hússtjórn. „Það gefur ekki góða mynd af stjórnsýslu borgarinnar að íbúar skuli ekki virtir svars,“ bætir Hjörleifur við.

Daginn eftir svaraði Nikulás Úlfar erindinu og sagðist hafa verið í sambandi við forráðamenn Iceland Airwaves. Hann hafi óskað eftir því að í samráði við hússtjórn Sjávarútvegshússins verði verkið á gafli hússins fjarlægt.

Fréttastofa hefur samskipti byggingafulltrúans við Iceland Airwaves undir höndum en í þeim neitar Nikulás að gefa upp hver það er sem hafi kvartað undan myndinni. Hann gefur þó starfsmanni Iceland Airwaves ákveðna vísbendingu. „Verkið á Sjávarútvegshúsinu fer mikið fyrir brjóstið á fyrrverandi ráðherra sem býr í nágrenninu og hefur hann óskað eftir því að það verði fjarlægt,“ skrifar Nikulás í pósti til starfsmanns tónlistarhátíðarinnar þann 19. september.

Starfsmaðurinn kom reyndar af fjöllum varðandi óánægju með myndina og sagðist hafa rætt við húsvörð Sjávarútvegshússins. Og húsvörðurinn hafi talað um að þeir vildu hafa verkið áfram. „Ekki hvenær eða hvort þeir vildu láta mála yfir,“ skrifar starfsmaðurinn til byggingafulltrúans. „Einhver misskilningur á milli okkar væntanlega. En við skulum fara í það undirbúa að láta mála yfir.“

En svo leið og beið og ekkert gerðist - myndin af sjómanninum var enn á sínum stað. Í lok nóvember skrifar Hjörleifur byggingafulltrúanum póst. „Sæll Nikulás. Nú er komið fram á jölaföstu og enn ber ekkert á efndum á fyrirheitinu um að umrædd risamynd á Sjávarútvegshúsinu verði fjarlægð. Hvenær er þess að vænta að við loforð þar að lútandi verði staðið?“

Nikulás svarar hálftíma síðar og upplýsir ráðherrann um að borgin hafi veitt ótímabundið leyfi fyrir listaverkinu í september 2015.  Hafa yrði samband við umsóknaraðila um að verkin yrðu fjarlægð í samráði við eigendur hússins. „Það voru s.s. ekki gefin loforð um að verkin yrðu fjarlægð að tilstuðlan embættis byggingarfulltrúa, heldur var það sett í hendur eigenda hússins og framkvæmdaaðila að ákvarða um það hvort og þá hvenær yrði málað yfir umrædda mynd.“ 

Í tölvupóstsamskiptunum sem fréttastofa hefur kemur einnig fram að lögfræðingur á umhverfis og skipulagssviði borgarinnar óskaði eftir því í morgun að fá bréf sem ráðuneytisstjóri atvinnuvegaráðuneytisins vísaði til í frétt Fréttablaðsins í morgun. Að það hefði verið borgin sem hefði krafist þess að málað yrði yfir myndina. „Umrætt bréf var reyndar tölvupóstur enn eins og hann ber með sér fóru einnig einhver símtöl á milli manna þar sem tölvupósturinn er svar til Hjörleifs,“ sagði ráðuneytið þegar það sendi bréfið til lögmannsins.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV