Sjö til átta klukkustunda svefn mikilvægur

09.01.2020 - 10:18
Mynd: Pexels / Pexels
„Ónógur svefn tengist mörgum sjúkdómum,“ segir Alma Möller landlæknir. Þar megi nefna heilabilun, kvíða og þunglyndi, krabbamein, sykursýki, hjartaáföll, heilaáföll, offitu og ónæmisbælingu. „Að sumu liggja góðar rannsóknir, annars staðar vísbendingar, en þetta erum við að skilja betur og betur.“

Rætt var við Ölmu um mikilvægi svefns í Morgunútvarpinu á Rás 2 og er hægt að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.  

Reglusemi mikilvæg

Rétt tæplega 30 prósent fullorðinna sofa sex klukkustundir eða minna á nóttu. Alma segir að þekking á mikilvægi svefns sé alltaf að aukast. Best sé að fá samfelldan svefn í sjö til átta klukkustundir og nefnir sem dæmi að mikilvægt sé að hafa reglu í háttatíma og fótaferðatíma og forðast kaffi og skjánotkun nokkrum klukkustundum fyrir háttatíma. Alma segist hafa fundið mun á sjálfri sér þegar hún bætti hálftíma til klukkutíma við svefntímann, þótt henni hafi þótt hún sofa vel fyrir. 

„Ég fann alveg vel fyrir því. Vellíðan og orka yfir daginn, afkastageta og svo framvegis.“

Ónógur svefn hafi víðtæk áhrif 

Á unglingsárum þroskist framheilinn á meðan sofið, sá hluti heilans sem stjórnar tilfinningum, hjálpar til við einbeitni og stillir skap.

Of lítill svefn hafi víðtæk áhrif því í svefni sé mikil virkni í heilanum; unnið úr taugaboðum dagsins og í djúpsvefninum sé ákveðið hvað verði eftir. Þá hafi of lítill svefn hafi einnig áhrif á ónæmiskerfið og hafi áhrif á efnaskipti, hjarta og æðakerfi. Framleiðsla vaxtarhormóns verði í svefni og endurnýjun frumna sem stuðli líka að hægari öldrun.

„Þannig að það er til mikils að vinna að sofa vel þannig að ónógur svefn tengist mörgum sjúkdómum. Þar er nefnt til sögunnar heilabilun, kvíði og þunglyndi og fleira, krabbamein, sykursýki, hjartaáföll, heilaáföll, offitu og ónæmisbælingu. Að sumu liggja góðar rannsóknir, annars staðarvísbendingar, en þetta erum við að skilja betur og betur,“ segir hún.  

Lúr yfir daginn bæti skamman nætursvefn

Alma segir að ef fólk nær ekki að sofa í sjö til átta klukkustundir á nóttu þá sé gott að taka sér lúr yfir daginn en hann megi ekki vera of langur. Einnig sé hægt að bæta svefn með reglusemi í háttatíma og fótaferðatíma. Forðast þurfi örvandi efni eins og koffein og nikótín nokkra klukkutíma fyrir svefn. Hreyfing sé góð og útivera, sérstaklega fyrri hluta dags á meðan það er bjart. Síðan sé gott að forðast skjánotkun nokkrar klukkustundir fyrir svefn. 

„Það er ekkert sem truflar djúpa svefninn eins mikið og áfengi. Áfengi hjálpar kannski fólki að detta út af en rýrir mjög gæði svefns.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi