Sjö plötur sem þú ættir að hlusta á í sumar

Mynd með færslu
 Mynd: Artists - Spotify

Sjö plötur sem þú ættir að hlusta á í sumar

16.07.2019 - 11:12
Við rennum hér yfir sjö plötur sem eru í raðhlustun hjá okkur þessa dagana og við mælum með fyrir sumarhlustunina.

No Geography - The Chemical Brothers 
No Geography er níunda stúdíóplata enska raftónlistartvíeykisins The Chemical Brothers og kom hún út þann 12. apríl. Þetta er fyrsta plata þeirra síðan 2014 en þeir hafa engu gleymt. Platan er frábær blanda af skynörvandi (e. psychedelic) stemningu og taktfestu, hún virðist gera ráð fyrir að hlustandi eigi að dansa og gleyma sér á meðan hann rennur yfir plötuna. Platan inniheldur hvern smellinn af öðrum, engin landafræði, bara fílingur. 

Þetta er platan sem þú myndir dansa við ein/n heima eða rúlla í fyrirpartýinu fyrir bæinn. Ef þú fílar FatBoy Slim, Daft Punk eða Massive Attack ættirðu að skoða The Chemical Brothers. 

Madame X - Madonna
Þessa þarf vart að kynna en hún snéri Evrópu og Ástralíu á hliðina þann 18. maí þegar hún lék fyrir dansi á sviði Söngvakeppni evrópskra sjónvarpstöðva. Þar kynnti hún til leiks lag af þessari plötu, lagið „Future“ ásamt rapparanum Quavo. En platan kom út 14. júní við góðar viðtökur. Platan er umvafin suðrænum sveiflum. Madonna segist sjálf hafa verið undir áhrifum af portúgalskri menningu en hún bjó þar árið 2017. Hún fær fjöldann allan af tónlistarfólki til að töfra tónlist með sér, þar á meðal rapparana Maluma og Swae Lee.

Þetta er platan sem þú kveikir á þegar þú ert að hjóla í sund eða að koma þér í gírinn fyrir grillpartý. Ef þú ert forfallinn Madonnu-hlustandi ætti þessi plata ekki að valda vonbrigðum.

Assume Form - James Blake 
Söngvarinn tregafulli frá Lundúnahreppi gaf út sína fjórðu breiðskífu með pompi og prakt í lok janúar og fékk alls kyns listafólk með sér á plötuna m.a. Travis Scott, Rosalíu og André 3000. Þetta er tilraunakennd plata, hana mætti flokka sem elektrónískt popp og hún er töluvert hiphop-miðaðri en þær sem við höfum heyrt áður. Takfesta í takt við fiðluleik í flæðandi heiðarlegum textum sem fjalla um paranoju, ástina og þroska. 

Þetta er platan sem þú hlustar á í löngum göngutúr eða þegar þú býrð þig undir erfitt samtal. Ef þú fílar SBRKT, The XX eða Sampha ættirðu að skoða James Blake.

Allt Er Eitt - Hjálmar
Reggístrákarnir í Hjálmum eru í útrás en þeir fagna 15 ára afmæli í ár og sendu í tilefni þess frá sér þessa plötu, Allt er eitt en hún leit dagsins ljós þann 24. maí. Allt er eitt er sú sjöunda í röðinni frá Hjálmum og þeir halda sig við þennan gamlan hljóðheim sem aðdáendur þeirra elska. Reggíflæðið er alls ráðandi og kemur manni í sumargír, textarnir eru skemmtilegir að vanda og Sigurður Guðmundsson gefur plötunni mjög gott væb eins og honum einum er lagið.

Þetta er platan sem þú hlustar á þegar þú ert að keyra hringinn eða fá þér fyrsta kaffibollann á sólríkum sumardegi. Í rauninni ættirðu að hlusta á þessa plötu ef þú fílar reggí almennt og íslensk dægurlög. 

Pony - Orville Peck 
Orville Peck hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir þessa fyrstu breiðskífu sína en hún kom út í mars og var meðal annars tilnefnd til hinna virtu kanadísku Polaris-verðlauna. Orville Peck er kántrítónlistamaður og hefur verið mjög iðinn við að tala um senuna síðan hann kom fram á sjónarsviðið, en hann fer ekki þessa hefðbundu leið sem við eigum að þekkja. Hann er grímuklæddur og hinsegin, og sagði í viðtali í Popplandi að „aðdáendur kántrítónlistar, sem ég tel mig til, okkur finnst tími til kominn að sjá og heyra annars konar raddir.“

Þetta er platan sem þú hefur undir þegar þú ert að undirbúa máltíð uppi í sumarbústað eða í kvöldgöngu með hundinn. Ef þú fílar Johnny Cash eða Sonic Youth ættirðu að skoða Orville Peck. 

III - Banks 
Elektró R&B prinsessan Banks gaf út sína þriðju plötu núna í júlí og fær hún góðar viðtökur hjá virtum tónlistartímaritum og aðdáendum. Hún kynnti plötuna til leiks með laginu „Gimme“ fyrr á árinu. Hún kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2014 með lagið „Before I Ever Met You“ og fékk strax verðskuldaða athygli fyrir áhugaverðan hljóðheim á fyrstu plötu sinni Goddess. Hún heldur sig við drungalega tóna í þungu raftónlistarflæði á III, persónulega texta og svala stemningu.

Þetta er platan sem þú hlustar á þegar þú ert að ryksuga íbúðina eða í langri strætóferð. Ef þú fílar MØ, FKA Twigs eða Lykke Li ættirðu að skoða Banks. 

Constantly In Love - Sólveig Matthildur 
Sólveig Matthildur er í hljómsveitinni Kælunni miklu en hún gaf einnig út sólóplötuna Unexplained Miseries & the Acceptance of Sorrow árið 2017 og hlaut Kraum-verðlaunin fyrir. Hún hefur verið læra hljóðtækni í Berlínarborg og plata þessi, Constantly In Love, sem kom út fyrr á þessu ári er skemmtilega synþaskotin, þétt gotaskotið popp með persónulegu ívafi. Titill plötunnar, að sögn Sólveigar mætti túlka á þann veg að hún sé upptekin af síbreytilegu umhverfi og hugmyndum í kringum sig.  

Þetta er platan sem þú hlustar á þegar þú ert að mála herbergið upp á nýtt eða þarft að fara í hraðsturtu. Ef þú fílar Kæluna Miklu eða Lykke Li ættirðu að skoða Sólveigu Matthildi.