Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sjö milljóna hækkun kaupverðs töluvert áfall

Lögmaður segir Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni ekki geta krafist þess að fólk sem keypt hefur íbúðir af félaginu greiði hærra verð fyrir þær en upphaflega var samið um. Mikil framúrkeyrsla varð félaginu fyrst ljós fyrir viku. 

 

Neitaði að afhenda lykla

Kaupendur að íbúðum sem Félag eldri borgara í Reykjavík reisti í Árskógum í Breiðholti fengu í gær bréf þess efnis að annað hvort þyrftu þeir að samþykkja milljónahækkun á kaupverði eða falla frá kaupunum. Ástæðan er sú að kostnaður við framkvæmdirnar fór fram úr áætlun og verktakinn neitaði að afhenda lyklana að óbreyttu.

Ekkert annaði í boði

Íbúðirnar eru 68 talsins og hafa flestar verið seldar. Þær fyrstu voru afhentar í gær, en til stóð að afhenda þær í lok júlí. Í dag voru nokkrir í óðaönn við að flytja inn. Þeir sem fréttastofa ræddi við voru hissa og enn að átta sig. Sumir voru sárir, aðrir sögðu félagið vera að gera sitt besta. Ein þeirra sem stendur í flutningum er Sigrún Sighvatsdóttir. „Þetta var talsvert áfall og ekki það sem ég bjóst við. Þessir kostir, annað hvort að hætta við eða greiða. Þetta eru harðir kostir.“ Sigrún seldi fyrra húsnæði í apríl og hefur síðan búið í sumarbústaðnum sínum. Hún fundaði með Félaginu og fasteignasölunni í gær og skrifaði undir skilmálabreytingu. „Það var enginn annar kostur í boði í raun og veru,“ segir hún.  

Íbúð Sigrúnar hækkaði um sjö milljónir, hækkunin er mismikil eftir stærð íbúða en nemur oft um tíu eða ellefu prósentum. Sumir eru í miklum vandræðum, geta jafnvel ekki keypt íbúðina lengur og eru búnir að losa sig við þá gömlu. 

Vandinn kom aftan að félaginu

Sigríður Snæbjörnsdóttir, varaformaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni segir vandann hafa komið aftan að félaginu, hafa orðið ljósan á fundi með byggingarnefnd þess fyrir viku. „Byggingarnefnd hefur boðið ábyrgð á þessu verki innan félagsins og við höfum aldrei fengið önnur skilaboð þaðan en að allt væri í lagi og stæðist, svo þegar við byrjum að vinna úr þessu fyrir viku síðan kemur í ljós að svo er ekki. Það er það sem kemur svona illa aftan að okkur og veldur þessu leiðindamáli,“ segir hún. Þetta virðist hafa komið flatt upp á bygginganefndina líka. Nefndin hafi gefið þær skýringar að framkvæmdir hafi dregist, byggingavísitala hækkað og fleira ófyrirséð komið upp. 

Funda með fólki í erfiðri stöðu

Félagið hefur sett í forgang að funda með þeim kaupendum sem eru í erfiðri stöðu. Í dag hefur það fundað með átján kaupendum - þrettán hafa að sögn Sigríðar samþykkt hækkunina. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru kaupendur beðnir að halda trúnað um efni fundanna. 

Engir fyrirvarar í samningunm

Það voru engir fyrirvarar í kaupsamningum um að verð gæti hækkað. Lögmaður sem aðstoðað hefur Félag eldri borgara segir að kaupsamningur um hverja íbúð sé tvíhliða, heimilt sé að breyta honum, séu báðir aðilar samþykkir því. Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður eins kaupandans, er á öðru máli. Hann hefur sent Félagi eldri borgara í Reykjavík bréf fyrir hönd skjólstæðings síns. Kaupendum beri engin skylda til að taka þessum afarkostum. „Fólkið gerði kaupsamning í trausti þess að þurfa að borga kaupverðið og ekkert meira.“

Geti krafist efnda

Hafi mistök verið gerð séu þau á ábyrgð félagsins, ekki sé hægt að senda kaupendum bakreikning. „Það gengur ekki og stenst ekki lög og reglur,“ segir Sigurður. Hafi kaupendur staðið við allt sitt geti þeir krafist efnda. „Ef þau fá ekki íbúðirnar afhentar þurfa þau að leita til dómstóla eða sýslumannsembættisins og láta setja sig inn í íbúðirnar.“

Enn undir markaðsverði

Sigríður leggur áherslu á að þrátt fyrir allt sé verðið enn um tíu til fimmtán prósentum undir markaðsverði. Félagið leiti nú allra leiða til að lækka það, ræði við Reykjavíkurborg sem að sögn Sigríðar afhenti lóðina seint og Landsbankann. En telur hún samningana standast lög og gæti félagið reynst bótaskylt? „Okkur líður auðvitað eins og við höfum ekki alveg staðið okkur þarna en það verður bara að koma í ljós. Það er alveg skýrt að Félag eldri borgara er endanlega ábyrgt fyrir þessu.“

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV