Sjö manns á Raufarhöfn sagt upp

07.03.2017 - 14:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
100 tonna sértækum byggðakvóta á Raufarhöfn hefur verið úthlutað til GPG fiskverkunar, sem fyrir hafði 400 tonn. Saltfiskverkun Hólmsteins Helgasonar ehf. verður í kjölfarið lokað, en framkvæmdastjóri fyrirtækisins hafði vonast eftir því að fá þessum kvóta úthlutað til að styrkja stöðu fyrirtækisins, sem hefur ekki verið góð undanfarin misseri.

Í dag og í gær hafa DV og Fréttablaðið fjallað um úthlutun Byggðastofnunar. Um 30 manns starfa hjá GPG á Raufarhöfn, en þar er rekin fiskvinnsla allan ársins hring.

Aukinn kvóti GPG efli atvinnulíf Raufarhafnar

Samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun var það metið sem svo að úthlutun til fyrirtækisins myndi efla atvinnulífið á Raufarhöfn og styrkja starfsemi þess í þorpinu enn frekar.

Ekki var þá þó sérstaklega tekið fram í umsókninni að aukinn kvóti myndi verða til þess að störfum hjá fyrirtækinu myndi fjölga. Samkvæmt upplýsingum frá GPG, hefur ekkert verið ákveðið með slíkt en auknum kvóta fylgi þó aukin umsvif og hingað til hafi frekar verið þörf fyrir að fá fleira starfsfólk inn í fyrirtækið en hitt. 

Treysti á það að fá kvótann

Saltfisksvinnsla Hólmsteins Helgasonar ehf. var opnuð árið 2015. Hólmsteinn Björnsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, baðst undan viðtali þegar eftir því var leitað en í samtali við fréttastofu sagði hann þó að hann hafi staðið í þeirri von að fyrirtækið myndi fá þennan aukna sértæka byggðakvóta í sinn hlut þar sem GPG hafi áður fengið 400 tonn í sinn hlut af sama kvóta, í samstarfi við önnur smærri fyrirtæki á staðnum.

Í krafti þess hafi verið ákveðið að fara aftur af stað með vinnsluna, en henni hafði áður verið hætt fyrir tæpu ári síðan vegna rekstrarerfiðleika. Nú þegar búið sé að ákveða að veita GPG aukakvótann sé lítið annað í stöðunni en að hætta vinnslunni,  en auk þess hafi gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum ekki þróast fyrirtækinu í hag. Alls voru sjö fastráðnir starfsmenn í fiskvinnslunni en þeim hefur nú öllum verið sagt upp.

Hafa keypt hótel og heila blokk

Hólmsteinn Helgason ehf. keypti nýlega heila íbúðablokk á Raufarhöfn, sem hefur staðið nánast tóm síðustu ár, og ætlar að gera hana upp til útleigu. Þá var fyrirtækið sömuleiðis í hópi kaupenda að Hótel Norðurljósum, sem Norðurþing seldi nýlega. Hólmsteinn segir að áætlanir fyrirtækisins séu óbreyttar hvað þessi verkefni varðar og tengist ekki lokun fiskvinnslunnar með beinum hætti.

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi