Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sjö ára tendraði ljósin á Oslóartrénu

01.12.2019 - 19:44
Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Jólaljósin voru tendruð á Oslóartrénu á Austurvelli í miðborg Reykjavíkur í dag, fyrsta dag aðventunnar. Fjöldi fólks kom saman á Austurvelli við þetta tilefni.

Það voru þeir Jónas Hrafn Gunnarsson, sjö ára norsk-íslenskur drengur, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sem tendruðu ljósin á trénu í sameiningu í dag.

Fyrsta Oslóartréð kom til Íslands árið 1951 og síðan hafa Norðmenn fært Íslendingum tré að gjöf til að skreyta í höfuðborginni. Jólatréð er sótt í Norðmannalund í Heiðmörk eins og síðustu ár og það prýðir jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.

En það voru ekki bara börn í fylgd með foreldrum sem fylgdust með tendrun jólatrésins, því tveir jólasveinar, þeir Bjúgnakrækir og Askasleikir, létu líka sjá sig.

Öll börn sem fréttastofa ræddi við sögðust hlakka til jólanna, en voru ekki öll með það á hreinu hvað þau vildu í jólagjöf. Þau voru þó flest sammála um að Oslóartréð væri með stærri jólatrjám sem þau hefðu séð.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV