Sjálfstæðismenn líklegastir til að ná góðum samningi

30.01.2020 - 23:14
Erlent · Innlent · Bretland · Brexit · ESB · Evrópa · Kastljós · Utanríkismál · viðskipti
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bretar ganga formlega úr Evrópusambandinu á morgun, eftir strembin rúm þrjú ár sem liðin eru síðan úrgangan var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í lok þessa árs eiga Bretar ekki lengur aðild að samningum sambandsins og þurfa því sjálfir að semja við hvert og eitt ríki, þar á meðal við Ísland. Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, segir að góð tengsl séu milli forystufólks Sjálfstæðisflokksins og Íhaldsflokksins sem geti gagnast vel í samningaviðræðunum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, lýsti því yfir í sjónvarpsfréttum í kvöld að samskiptin við Breta hafi verið góð eftir að úrgönguferlið hófst og það sé ríkur vilji af hálfu Breta að samskiptin verði áfram góð. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, ræddi við Baldur og Gylfa Magnússon, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, um Brexit í Kastljósi kvöldsins.

„Ég tók eftir því í fréttatímanum að utanríkisráðherra er mjög bjartsýnn og ég held að það sem jafvel geti hjálpað íslenskum stjórnvöldum við samningaviðræðurnar er það að það eru mjög náin tengsl á milli Sjálfstæðisflokksins og Breska íhaldsflokksins, og sérstaklega þeirra sem stjórna íhaldsflokknum í dag,“ sagði Baldur. Hann telur líklegt að samningar milli Íslands og Bretlands verði svipaðir og þeir sem Bretar geri við Evrópusambandið. Hann telur að Íslendingar geti reynt að ná hagstæðum samningum um sjávarafurðir og jafnvel um frjálst flæði fólks þar sem Íslendingar séu fáir. Það verði þó einnig að taka með í myndina hvort Bretar séu líklegir til að semja á öðrum nótum um frjálst flæði fólks við Ísland en gert verði við önnur ríki.

Samningaviðræðurnar hefjast í mars og einnig semja Bretar um viðskipti við Bandaríkin. Gylfi segir að sú samningalota geti reynst Bretum erfið og að líklegt sé að samningamenn Bandaríkjanna setji fram ýmsar kröfur, til dæmis er varða útflutning á matvælum og aðgengi Bandaríkjamanna að breska heilbrigðiskerfinu, þannig að bandarísk fyrirtæki geti haslað sér völl í Bretlandi. „Þannig að það er sýnd veiði en ekki gefin að gera góðan samning á milli Bretlands og Bandaríkjanna.“

Bretar stefna að því að ná samningum fyrir næstu áramót. Gylfi telur það kraftaverk ef það næst. Samningurinn við ESB sé sá mikilvægasti. Deilumálin séu mörg og því líklegt að einhvers konar samningar náist en að úrlausn margra deilumála verði frestað til næstu ára. 

Hér er hægt að nálgast þáttinn í heild sinni.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi