Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sjálfstæðismenn kvörtuðu yfir fjölmiðlum

02.03.2018 - 19:12
Þingflokksfundur Sjálfstæðisflokksins í Valhöll 8. nóvember 2017 eftir kosningarnar í október 2017.
Þingflokksfundur Sjálfstæðisflokksins í Valhöll 8. nóvember 2017. Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins kvörtuðu yfir hlutdrægni fjölmiðla á fundi með kosningaeftirlitsmönnum ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, í aðdraganda Alþingiskosninganna í haust. Þetta kemur fram í skýrslu kosningaeftirlitsmannanna sem birt var í dag.

Í skýrslunni segir að á fundinum hafi fulltrúar flokksins „kvartað yfir meintri hlutdrægni fjölmiðla sem fjölluðu um lögbannið þannig að það hafi eingöngu átt við um fréttaflutning af forsætisráðherranum“. Ekki kemur fram í skýrslunni með hvaða fulltrúum flokksins kosningaeftirlitsmennirnir funduðu eða yfir hvaða fjölmiðlum þeir kvörtuðu.

Tveimur vikum fyrir kosningar fékk Glitnir HoldCo, félagið utan um eignir gamla Glitnis, lögbann hjá sýslumanni á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media upp úr gögnum sem talin voru innan úr gamla bankanum. Umfjöllun miðlanna hafði fyrst og fremst snúist um viðskipti Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, meðal annars sölu hans á eign sinni í Sjóði 9 hjá Glitni, daginn sem neyðarlögin voru sett árið 2008.

Fulltrúi ÖSE um fjölmiðlafrelsi lýsti áhyggjum af lögbanninu 18. október og krafðist þess að því yrði aflétt.