Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sjálfstæðisflokkurinn stóreykur fylgi sitt

13.04.2016 - 19:00
Nær 27 prósent segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn í alþingiskosningum samkvæmt nýrri Gallup-könnun. Það er aukning um fimm prósentustig frá síðustu viku. Framsókn fengi tæp sjö prósent sem er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með síðan í febrúar 2008.

Niðurstöður þessarar könnunar eru úr netkönnun Gallups sem gerð var 7. til 12. apríl. Heildarúrtak var 1.434 og var þátttökuhlutfall 56,1 prósent og af þeim nefndu 82,9 prósent flokk. Spurt var: Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?

Fylgi Framsóknarflokks ekki mælst minna í átta ár

Samkvæmt könnuninni segjast nær 27 prósent myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Það er fimm prósentustigum meira en í síðustu viku. Tæp sjö prósent segjast myndu kjósa Framsóknarflokkinn, það er fjórum prósentustigum minna en í síðustu viku og minnsta fylgi sem mælst hefur við flokkinn síðan í febrúar 2008. 

Píratar fengju samkvæmt þessari könnun 29,3 prósent sem er þremur prósentustigum minna en fyrir viku. Rétt tæp 20 prósent myndu kjósa Vinstri græn sem er þremur prósentustigum meira en fyrir viku og þarf að leita aftur til september 2010 til að finna meira fylgi við flokkinn. 9 prósent segjast myndu kjósa Samfylkinguna, 5 prósent Bjarta framtíð, nær 3 prósent Viðreisn og tæpt eitt prósent aðra flokka eða framboð. 

Rúmlega 34 prósent segjast styðja ríkisstjórnina. Það er aukning um fjögur prósentustig frá síðustu könnun sem gerð var áður en formlega var skipt um ríkisstjórn. Sú aukning er þó ekki tölfræðilega marktæk.