Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Sjálfstæðisflokkur eykur fylgi sitt

02.04.2012 - 19:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst mikið milli febrúar og mars samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups. Aðeins einu sinni hefur sitjandi ríkissjórn mælst með minni stuðning.

Það var róstusamt hér á landi í ársbyrjun 2009. Mótmælt var á götum úti þar sem ein krafan var að ríkisstjórn Geirs H. Haarde segði af sér. Það gerðist síðan 26. janúar. Nokkrum vikum áður mældi Gallup fylgi við ríkisstjórnina. Niðurstaðan þá - um 26 prósent kjósenda studdu stjórnina - stuðningurinn hafði aldrei mælst minni. Og þó það met hafi ekki enn verið slegið er nýjasta mæling Gallups á fylgi við núverandi ríkisstjórn athyglisverð. 28 prósent kjósenda segist styðja ríkissjórnina nú - litlu fleiri en studdu stjórn Geirs á þessum róstusömu tímum fyrir þremur árum.

Og á sama tíma og stuðningur við ríkisstjórnina minnkar eykst fylgi við Sjálfstæðisflokkinn hratt. Rúmlega 38% segjast myndu kjósa flokkinn yrði kosið nú - fimm prósentustigum fleiri en fyrir mánuði. Á sama tíma mælist Samfylkingin með ríflega 17 prósent fylgi og VG ríflega 11 prósent. Fylgi Framsóknarflokks mælist 13 prósent.

Ef nýju stjórnmálaöflin eru skoðuð sést að fylgi við Samstöðu mælist nú um 9%. Fréttir um óeiningu og brotthvarf eins lykilmanna flokksins virðist ekki hafa haft afgerandi áhrif á fylgið - en það minnkaði um tvö prósentustig milli mánaða. Fylgi þeirra samtaka sem standa að Dögun mælist slétt 5% en fylgi Bjartrar framtíðar er tæplega 5%.

Magnús Orri Schram, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, segir að tölur í skoðanakönnun segi ekki allt. Það sem mestu máli skipti sé að ná hér viðsnúningi í efnahagslífinu og telji að á þessum þremur árum hafi ríkisstjórnin tekist á við ómælda erfiðleika til að snúa hér hjólunum í gang að nýju. Ekki megi gleyma því að hér hafi allt verið í kaldakoli þegar hún hafi tekið við.

Síðan þá hafi ríkisstjórnin þurft að taka óvinsælar, en nauðsynlegar ákvarðanir, eins og að skera niður í útgjöldum ríkissjóðs til að ná niður hallanum. Hingað til hafi þessi ríkisstjórn fyrst og fremst verið upptekin við að hreinsa upp og laga og framkvæmda björgunaraðgerðir. Næsta ár muni snúast um sókn fiskveiðistjórnunar, á sviði rammalöggjafar og stjórnarskrár, og það sem hann vilji leggja mesta áherslu á, sé að nú sé skapast grundvöllur í rekstri ríkissjóðs við að skera ekki bara niður, heldur einnig sækja fram.

Könnun Gallup var gerð í mars, 6.635 lentu í úrtaki Gallup en svarhlutfallið var 60,3 prósent. Þar af nefndu 68 prósent flokk. 16,5 prósent sögðust skila auðu eða ekki kjósa en fimmtán prósent neituðu að svara eða tóku ekki afstöðu.