Tilbúin til að mæta tónlistinni á eigin forsendum
„Ég hef sjálf valið mér líf sem þjónar mér best enda vinn ég við að hugleiða allan daginn,“ segir Lára kímin. „Áskorunin felst svo í því að færa andagiftina í öll hlutverk lífsins, inn í foreldrahlutverkið til dæmis og tónlistarbransann.“
Platan er sjötta sólóplata sönkonunnar og segir hún að ferlið við að gefa út tónlist taki alltaf á og þess vegna hefur útgáfan tekið tíma. „Mér fannst ég þurfa að vera tilbúin til að mæta tónlistinni á mínum eigin forsendum því ég hef svo oft tekið þátt í verkefnum sem gefa sjálfri mér ekki neitt.“
Hún rifjar upp eftirminnilegt atvik þegar hún áttaði sig á því að framvegis þyrfti hún að vera heiðarleg gagnvart sjálfri sér og gera hlutina eftir sínu höfði. „Ég var stödd í bakherberginu á Nasa á undirfötunum því umboðsmanni mínum fannst svo frábær hugmynd að ég myndi dansa með grímu á nærfötunum fyrir tónlistarkonuna Peaches. Það átti að vera svo rosalega gott fyrir tengslanetið mitt,“ rifjar hún upp.
Lára kom sér út úr aðstæðunum enda áttaði hún sig á að hún væri á röngum stað. „Það er svo margt í þessum iðnaði sem ég hef mætt á þessum sautján ára ferli sem er pínu kúkú. Þess vegna heitir platan Rótin.“
Tók gagnrýnina nærri sér
Sjálf segist hún ekki vera mikið fyrir að mynda tengsl og að koma sér á framfæri á þann hátt sem bransinn virðist stundum krefjast. Hún er ekki mikið fyrir tengslamyndun og kokteilaboð og í gegnum tíðina hefur henni líka fundist erfitt að fá gagnrýni frá fólki sem hún segir jafnvel ekki gefa sér tíma til að hlusta. „Þegar ég var nýbúin að gefa út mína aðra plötu las ég krítík í blaði með fyrirsögninni: Er Lára góð söngkona? Um var að ræða plötugagnrýni og svarið var nei.“ Lára getur hlegið að atvikinu í dag en á sínum tíma hafði gagnrýni sem þessi djúpstæð áhrif á hana enda tónlist hennar afar persónuleg. Hún hefur þó mögulega aldrei verið eins persónuleg og á nýju plötunni.
Ólafur Páll Gunnarsson ræddi við Láru Rúnarsdóttir í Popplandi og hægt er að hlýða á þáttinn hér.