Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sjálfsást og súkkulaði lykill að vellíðan

Mynd: Gísli Berg / RÚV

Sjálfsást og súkkulaði lykill að vellíðan

27.10.2019 - 15:13

Höfundar

Lára Rúnarsdóttir uppgötvaði það þar sem hún stóð á nærfötunum með grímu baksviðs á Nasa, um það bil að stíga á svið og dansa með tónlistarkonunni Peaches, að hún væri á röngum stað. Hún var gestur í Stúdíói 12 þar sem hún lék lög af nýrri plötu en á henni leitar hún í innsta kjarnann.

Nýja platan heitir Rótin og er hún komin út á Spotify. Útgáfunni verður fagnað með tónlistarveislu í Bæjabíói á fimmtudagskvöld. Lára var gestur í Stúdíói 12 ásamt þeim Unni Jónsdóttur og Sigrúnu Kristbjörgu Jónsdóttur þar sem þær léku þrjú glæný lög af plötunni, Dansi, dansi, Altari og Sýn. Hún ræddi við Ólaf Pál Gunnarsson um tilurð plötunnar, ferilinn og súkkulaðisetrið sem hún rekur.

Mynd: RÚV / RÚV

Íslendingar þurfa griðarstað

Ferill Láru hófst á goðsagnakennda tónleikastaðnum Grand Rokk fyrir sautján árum síðan. Þar tróð hún reglulega upp með gítarinn sinn og söng fyrir gesti. Hún er þó ekki aðeins tónlistarkona því síðan nýverið er hún líka rekstrarstjóri súkkulaðisetursins Andagiftar sem hún rekur ásamt Tinnu Sverrisdóttur leikkonu. Í setrinu er drukkið súkkulaði og þar syngja þær vinkonur möntrur, kyrja og stunda jóga. Slagorð þeirra eru sjálfsmildi og sjálfsást en það er það sem þær eru að æfa sig í alla daga. „Í Andagift erum við hrá, heiðarleg og erum við sjálf. Við bjóðum upp á tónheilun og djúpslökun og þetta er griðarstaður fyrir okkur Íslendinga.“

Andagift er viðbragð við þeirri tilhneigingu Íslendinga til að keyra sig út og vinna yfir sig. „Við sjáum það í samfélaginu að fleiri og fleiri eru að lenda í kulnun,“ segir hún. Lára og Tinna hafa sjálfar lent í þessari reynslu og þykir þeim því sérstaklega mikilvægt að skapa þetta rými. 

Mynd: RÚV / RÚV

Tilbúin til að mæta tónlistinni á eigin forsendum

„Ég hef sjálf valið mér líf sem þjónar mér best enda vinn ég við að hugleiða allan daginn,“ segir Lára kímin. „Áskorunin felst svo í því að færa andagiftina í öll hlutverk lífsins, inn í foreldrahlutverkið til dæmis og tónlistarbransann.“

Platan er sjötta sólóplata sönkonunnar og segir hún að ferlið við að gefa út tónlist taki alltaf á og þess vegna hefur útgáfan tekið tíma. „Mér fannst ég þurfa að vera tilbúin til að mæta tónlistinni á mínum eigin forsendum því ég hef svo oft tekið þátt í verkefnum sem gefa sjálfri mér ekki neitt.“

Hún rifjar upp eftirminnilegt atvik þegar hún áttaði sig á því að framvegis þyrfti hún að vera heiðarleg gagnvart sjálfri sér og gera hlutina eftir sínu höfði. „Ég var stödd í bakherberginu á Nasa á undirfötunum því umboðsmanni mínum fannst svo frábær hugmynd að ég myndi dansa með grímu á nærfötunum fyrir tónlistarkonuna Peaches. Það átti að vera svo rosalega gott fyrir tengslanetið mitt,“ rifjar hún upp.

Lára kom sér út úr aðstæðunum enda áttaði hún sig á að hún væri á röngum stað. „Það er svo margt í þessum iðnaði sem ég hef mætt á þessum sautján ára ferli sem er pínu kúkú. Þess vegna heitir platan Rótin.“

Tók gagnrýnina nærri sér

Sjálf segist hún ekki vera mikið fyrir að mynda tengsl og að koma sér á framfæri á þann hátt sem bransinn virðist stundum krefjast. Hún er ekki mikið fyrir tengslamyndun og kokteilaboð og í gegnum tíðina hefur henni líka fundist erfitt að fá gagnrýni frá fólki sem hún segir jafnvel ekki gefa sér tíma til að hlusta. „Þegar ég var nýbúin að gefa út mína aðra plötu las ég krítík í blaði með fyrirsögninni: Er Lára góð söngkona? Um var að ræða plötugagnrýni og svarið var nei.“ Lára getur hlegið að atvikinu í dag en á sínum tíma hafði gagnrýni sem þessi djúpstæð áhrif á hana enda tónlist hennar afar persónuleg. Hún hefur þó mögulega aldrei verið eins persónuleg og á nýju plötunni.

Ólafur Páll Gunnarsson ræddi við Láru Rúnarsdóttir í Popplandi og hægt er að hlýða á þáttinn hér

Tengdar fréttir

Tónlist

Koddar og geimverur í Stúdíó 12

Tónlist

„Alfa Partý“ Apparat Organ Quartet í Stúdíó 12

Tónlist

Prins Jóló í hátíðarformi í Stúdíó 12