
Sveinn Kristinsson formaður Rauða krossins á Íslandi þakkaði fundargestum fyrir áhugann á að veita lið. Bryndís Björgvinsdóttir rithöfundur sem hóf ákallið „Kæra Eygló Harðar“ á Facebook talaði um mikil viðbrögð fólks við skrifum hennar. Þá fluttu verkefnisstjórar hjá Rauða krossinum erindi um hvaða ferli flóttamenn þurfa að fara í gegnum og um hvert hlutverk sjálfboðaliða er.
Helga Gunnur Þorvaldsdóttir, sem skráði sig sem sjálfboðaliða í síðustu viku, sagði frá ástæðunum í hádegisfréttum í dag:
„Mér bara rennur blóðið til skyldunnar. Við bara búum öll í einu stóru samfélagi og við eigum að hjálpast að þegar fólk lendir í ógöngum og slíkri neyð sem þetta fólk er í. Þannig að maður getur ekki horft upp á þetta og ekki gert neitt.“ Hvað myndirðu helst vilja gera? „Ég vil veita þeim einhvern stuðning og styrk. Og ég á börn og myndi vilja hitta börnin sem eru að koma hingað og kynnast þeim og að þau eignist félaga hér. Og þetta gætu orðið góðir vinir. Og aðstoða bara í hvívetna það sem ég get mögulega.“