Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sjaldgæft að taka við jafnmörgum undirskriftum

02.09.2019 - 09:23
Mynd með færslu
 Mynd: Orkan okkar
Þingheimur gengur til atkvæða um þriðja orkupakkann og málefni honum tengd í dag klukkan hálfellefu. Boðað hefur verið til mótmæla á þingpöllum og á Austurvelli á sama tíma. Fulltrúar Orkunnar okkar afhenda fyrsta varaforseta þingsins hátt í 17 þúsund undirskriftir gegn þriðja orkupakkanum áður en þingfundur hefst.

„Atkvæðagreiðsla, sem sagt langþráð, bíður dagsins í dag. Ég geri ráð fyrir að einhverjum þingmönnum liggi eitthvað enn á hjarta og menn vilji gera grein fyrir atkvæði sínu,“ segir Guðjón S. Brjánsson, fyrsti varaforseti Alþingis. „Það auðvitað getur tekið dálítinn tíma ef margir vilja. Það bara hefur sinn framgang.“ Efnislegri umræðu lauk á fimmtudag.

Boðað hefur verið til mótmæla gegn þriðja orkupakkanum, sem hefjast á sama tíma og þingfundurinn. Þá afhenda fulltrúar Orkunnar okkar þúsundir undirskrifta til að skora á þingmenn að hafna orkupakkanum. Guðjón tekur við þeim áður en þingfundur hefst. Frosti Sigurjónsson, einn fulltrúa Orkunnar okkar, segir að um 16.800 hafi skrifað undir. 

Er sjaldgæft að taka við svona mörgum undirskriftum? „Það er auðvitað fremur sjaldgæft geri ég ráð fyrir en það er ekki óþekkt. Slíkt fær sína kynningu hér í þinginu,“ segir Guðjón.

Skipuleggjendur mótmælanna hvetja fólk til að fjölmenna á þingpalla. Guðjón segir að allir séu velkomnir að fylgjast með atkvæðagreiðslunni. Þeir sem mæti á þingpalla sé þó bannað að hafa sig frammi á meðan þingfundi stendur.

Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir
Mótmælendur bíða eftir að komast upp á þingpalla.

Umræður á Alþingi um orkupakkann hafa staðið yfir í um hundrað og fimmtíu klukkustundir, og eru þær lengstu í sögu þingsins. Þá hefur utanríkismálanefnd og atvinnuveganefnd Alþingis fengið til sín tugi sérfræðinga til að fjalla um þriðja orkupakkann, og afleiðingar fyrir Ísland verði hann samþykktur.

Auk orkupakkans verða greidd atkvæði um skattlagningu tekna á höfundarrétti. Að loknum atkvæðagreiðslum verður þingi frestað. Nýtt þing hefst svo á þriðjudag í næstu viku.