Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sjá fram á að framkvæmdir við heilsársveg hefjist 2022

18.12.2019 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heilsársvegur inn í Árneshrepp er í augsýn með auglýsingu Vegagerðarinnar á nýjum veg yfir Veiðileysuháls sem liggur úr Veiðileysufirði og inn í Reykjafjörð syðri.

Vegagerðin auglýsir drög að tillögu að matsáætlun á nýjum veg. 700 milljónir eru áætlaðar í framkvæmdina. Ný veglína um Veiðileysuháls liggur neðar í landslaginu en sú eldri. Það með verður vegurinn snjóléttari og hægt að búast að við að opið verði í hreppinn allt árið.

Vegurinn lengist um 200 metra og verður um 11,8 kílómetrar. Eva Sigurbjörnsdóttir segir nýja veglínu mikla búbót fyrir hreppinn.

„Þetta er ekkert svakalega langur kafli, en það kemur til með að muna mjög mikið um að fá hann svona í staðsetningu í landslaginu þannig að það sé betur hægt að moka hann,“ segir hún.

Teikningar þar sem ný veglína um Veiðileysuháls sést í gulu.
Ný veglína sést í gulu. Núverandi veglína er merkt inn í brúnu

Til viðbótar við það að liggja neðar er veglínan einnig færð út fyrir þorpið í Djúpavík. Hingað til hefur umferð gengið þar í gegn. Eva segir það góða breytingu þar sem mikil ferð hefur verið á bílum sem keyra í gegn og þurft að gæta að öryggi barna og annarra sem eru á fæti í þorpinu.

Í dag er enginn reglubundinn snjómokstur inn í hreppinn frá janúar og fram í mars og þar með alla jafna ófært. Þó hefur sveitarfélagið fengið úthlutað úr fjárlögum til þess að standa straum af kostnaði við mokstur stöku sinnum til hálfs á móti Vegagerðinni.

Eva segir að íbúarnir séu búnir að bíða lengi eftir áreiðanlegum samgöngum.

„Þessi vegur er búinn að vera á stefnuskrá okkar allra eiginlega bara í marga áratugi,“ segir hún.

Fresturinn fyrir athugasemdir við drögin eru til 20. janúar. Vegagerðin gerir svo ráð fyrir því að umhverfismati ljúki 2021 og að framkvæmdir megi hefjast 2022.

Teikningar þar sem ný veglína um Veiðileysuháls sést í gulu.
Hér sést hvernig ný veglína fer fram hjá þorpinu í Djúpavík sem er niðri til vinstri