Simone Biles getur unnið sextánda HM gullið

Simone Biles getur unnið sextánda HM gullið

10.10.2019 - 13:43
Heimsmeistaramótið í áhaldafimleikum heldur áfram í Stuttgart í Þýskalandi. Í dag er keppt til úrslita í fjölþraut kvenna og þar á bandaríska stórstjarnan Simone Biles í raun heimsmeistaratitilinn vísann.

En jafnvel þó spennan verði líklega meiri um 2. og 3. sætið ættu það að vera forréttindi að fylgjast með bestu fimleikakonu allra tíma leika listir sínar. Biles og keppinautar hennar hefja keppni í fjölþrautinni í dag klukkan 14:00.

Í fjölþraut gilda samanlögð stig fyrir æfingar á öllum áhöldunum fjórum. Keppt er í stökki, á tvíslá, jafnvægisslá og í gólfæfingum.

Biles sem er 22 ára og frá Bandaríkjunum hefur fjórum sinnum orðið heimsmeistari í fjölþraut. Þá hefur hún fjórum sinnum orðið heimsmeistari með bandaríska liðinu í liðakeppni, þar af á mótinu núna í Stuttgart. Þá hefur hún unnið sjö gullverðlaun á einstökum áhöldum á HM. Þannig að hún gæti unnið sinn sextánda heimsmeistaratitil vinni hún fjölþrautina í dag. Þá vann hún fern gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.

RÚV sýnir úrslitin í beinni útsendingu og hefst hún klukkan 13:55. Fylgjast má með útsendingunni í spilaranum hér fyrir ofan.