Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Síminn styrkir mest allra

16.11.2019 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd: ´000 - 0´´
Síminn er það fyrirtæki sem veitt hefur stjórnmálaflokkum hæstu styrkina á síðastliðnum þremur árum. Á hverju ári hefur fyrirtækið styrkt stærstu flokka landsins um 400 þúsund krónur sem á þessum tíma var leyfileg hámarksfjárhæð. HB Grandi veitti næst hæstu fjárhæðina.

Þetta leiðir samantekt fréttastofu á styrkveitingum fyrirtækja til stjórnmálaflokka í ljós, en upplýsingarnar eru fengnar úr ársreikningum stjórnmálaflokkanna á árunum 2016 til 2018.

Ef skoðuð eru þau tíu fyrirtæki sem styrkja flokkanna um hæstu fjárhæðirnar trónir Síminn á toppnum. Á umræddu tímabili styrkti Síminn flokkanna um 6,4 milljónir króna en það fyrirtæki sem greiddi næst hæstu framlögin styrkti flokkana um 5,6 milljónir.

Upphæðin dreifist jafnt á milli stærstu flokkanna á þingi, það er Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, VG, Framsóknarflokks, Miðflokks og Viðreisnar. Á hverju ári styrkti Síminn þessa flokka um 400 þúsund krónur á hvern flokk sem á þessum tíma var hámarksframlag því eftir lagabreytingu í fyrra er hámarksframlag lögaðila 550 þúsund krónur á ári. Ekki náðist í forsvarsmenn Símans fyrir fréttir.

Sex af þeim 10 fyrirtækjum sem veittu hæstu styrkina eru útgerðir. Þetta eru HB Grandi, Brim, Síldarvinnslan, Ísfélag Vestmannaeyja, Samherji og Vísir. Allls námu styrkir útgerðanna á þessu þriggja ára tímabili ríflega 20 milljónum króna.

Önnur fyrirtæki á topp 10 listanum eru verkfræðistofan Mannvit, Kvika banki og Borgun.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk langhæstu styrkina frá lögaðilum í fyrra, eða rúmlega 22 milljónir króna. Framsóknarflokkurinn fékk 9 og hálfa milljón, Miðflokkurinn 4 og hálfa, Viðreisn 4 milljónir og Samfylkingin og VG um 3 og hálfa milljón hvor. Hvorki Píratar né Flokkur fólksins þáðu styrki frá lögaðilum.

Magnús Geir Eyjólfsson