Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Sigurjón og Elín dæmd í fangelsi

08.10.2015 - 16:11
Mynd með færslu
Sigurjón Árnason við réttarhöld í héraðsdómi, ásamt verjanda sínum, Sigurði G. Guðjónssyni Mynd: RÚV
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, var í Hæstarétti í dag dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi og Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs í 18 mánaða fangelsi í tengslum við Ímon-málið svokallaða.

Hæstiréttur sneri þar með við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem sýknaði bæði Sigurjón og Elínu.

Dómur Hæstaréttar er ítarlegur. Þar segir meðal annars að horft hafi verið til þeirrar fjárhæðar sem umboðssvik ákærunnar snerust um en hún nam 5,1 milljarði króna. Það fé hafi allt tapast. Hæstiréttur segir að brot þeirra hafi falið í sér alvarlegt trúnaðarbrot sem hafi leitt til stórfellds fjártjóns.  

 

Dómurinn segir enn fremur að brotin hafi beinst í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi og að tjónið, sem af þeim hlaust, verði ekki metið til fjár.

Hæstiréttur bendir þó á að hvorki Sigurjón né Elín hafi verið hygla sér eða öðrum sem þeim tengdust.

Í málinu voru þrír stjórnendur ákærðir fyrir markaðsmisnotkun með því að lána félaginu Imon ehf. rúmlega fimm milljarða króna til að kaupa hlutabréf í Landsbankanum rétt fyrir setningu neyðarlaganna.  

Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar, var sakfelldur í málinu í héraði og hlaut níu mánaða dóm. Sex þeirra voru skilorðsbundnir. Hæstiréttur þyngdi þann dóm í níu mánaða óskilorðsbundið fangelsi.

Með dómi Hæstaréttar í dag hafa æðstu stjórnendur hjá tveimur af þremur stóru viðskiptabönkunum hlotið þunga dóma.  

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, og Sigurður Einarsson, stjórnarformaður bankans, voru dæmdir í fimm hálfs og fjögurra ára fangelsi í Al Thani-málinu svokallaða.