Sigurður Örlygsson látinn

Sigurður Örlygsson listmálari.
 Mynd: Sigurður Örlygsson

Sigurður Örlygsson látinn

04.06.2019 - 14:03

Höfundar

Sigurður Örlygsson listmálari er látinn, 72 ára að aldri.

Sigurður Örlygsson var fæddur 28. júlí 1946. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla íslands árin 1967-71, Det Kongelige Danska Kunstakademi 1971-72 og hjá prófessor Richard Mortensen í Art Students League of New York 1974-75. Sigurður hélt fjölda sýninga meðan hann starfaði, innanlands og utan.

Á yfirlitssýningu í Gerðarsafni árið 1996, þegar Sigurður varð fimmtugur, gafst almenningi og honum sjálfum tækifæri til að sjá þróun verka hans yfir aldarfjórðung. „Ég hélt alltaf að ég væri svona hálfgerður geðklofi, að mála hist og her, en ég sé að það er samfelld þróun. Ég er svolítið ánægður með það,“ sagði Sigurður í viðtali við fréttastofu RÚV.

Mynd: RÚV / RÚV
Fréttastofa RÚV ræddi við Sigurð þegar sett var upp yfirlitssýning verka hans í Gerðarsafni í Kópavogi 1996.

„Ég byrjaði í einhverjum „hard-edge“ myndum og mínímalisma. Mér fannst orðið svo leiðinlegt að vinna þessar myndir að ég ákvað að setja einhverja áferð í þetta. Smám saman fór ég inn í minn ævintýraheim. Ég var mjög einmana sem barn og lék mér alltaf einn og las vísindaskáldsögur. Mér fannst þetta vera farið að koma inn í mínar myndir síðastliðin 10 árin.“

Mynd: RÚV / RÚV
Innlit á vinnustofu Sigurðar Örlygssonar 1984.

Sigurður lést á Landspítalanum við Hringbraut fimmtudaginn 30. maí. Útför hans fer fram frá Áskirkju fimmtudaginn 6. júní kl. 15.