Feneyjatvíæringnum lauk undir lok síðasta mánaðar en þegar hefur verið ákveðið hver verður fulltrúi Íslands á hátíðinni eftir tvö ár. Það er Sigurður Guðjónsson myndlistarmaður sem er þekktur fyrir magnþrungin vídjóverk þar sem mynd, hljóð og rými mynda órofa heild. Hann sýndi fyrst um aldamótin síðustu í listamannareknum rýmum í Reykjavík og vöktu dökk og ágeng vídjóverk hans strax athygli.
Sigurður Guðjónsson er fæddur árið 1975. Hann nam myndlist við Listaháskóla Íslands en líka í Kaupmannahöfn og Vínarborg. Sigurður á að baki 20 einkasýningar víðs vegar um heim og hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin árið 2018 fyrir verkið Innljós í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði.
„Þetta var nú bara símtal á þriðjudagsmorgni og kom skemmtilega á óvart í haustinu,“ segir Sigurður. „Ég get ekki sagt að ég hafi verið að hugsa um þetta. Síðustu ár hefur verið óskað eftir hugmyndum. Ég bjóst við að það kæmi aftur þannig að þetta kom skemmtilega á óvart.“