Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sigurður Guðjónsson er myndlistarmaður ársins

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Sigurður Guðjónsson er myndlistarmaður ársins

22.02.2018 - 20:25

Höfundar

Listamaðurinn Sigurður Guðjónsson hlaut myndlistarverðlaun Íslands sem afhent voru nú fyrir stuttu í Listasafni Reykjavíkur. Auður Lóa Guðnadóttir hlaut hvatningarverðlaun.

Þetta er í fyrsta skipti sem verðlaunin eru afhent en Sigurður hlýtur þau fyrir sýninguna Inniljós sem sett var upp í kappellu og líkhúsi St. Jósepsspítala.

Sigurður Guðjónsson ræðir sýningu sína Innljós á St. Jósepsspítala í Hafnarfirði.
 Mynd: RÚV
Eitt verkanna á sýningunni Inniljós.

Dómnefndin segir Sigurðu hljóta verðlaunin „fyrir ákaflega sterkar og heilsteyptar innsetningar á óvenjulegu sýningarsvæði í St. Jósefsspítala. Sýningin er sjónræn upplifun þar sem áhorfandinn verður meðvitaður um eigin tilvist og líkama. Verkin Fuser 2017, Scanner 2017 og Mirror Projector 2017 eru dularfull og voldug í senn og kalla fram óræða skynjun sem þó er full af vísunum í vélræna virkni.“

Una Sigtryggsdóttir og Auður Lóa Guðnadóttir í Víðsjárviðtali.
 Mynd: Dagur Gunnarsson
Auður Lóa Guðnadóttir fær hvatningarverðlaun.

Auður Lóa Guðnadóttir útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2015 og hefur síðan þá verið virk í sýningarhaldi. Dómnefndin segir Auði óhrædda við að leita efniviðar á óvæntum stöðum og túlka viðfangsefni sín af innsæi og frumleika. „Öll vinna hennar og framsetning leiftrar af hlýju og fyrirheitum um áframhaldandi hugmyndaflug og óvenjulega sýn á lífið,“ segir jafnframt í áliti dómnefndar.

Aðrir sem voru tilnefndir til verðlaunanna voru Anna Júlía Friðbjörnsdóttir fyrir sýninguna Erindi í Hafnarborg, Egill Sæbjörnsson fyrir sýninguna Ùgh & Bõögâr Jewellery í i8 Gallery og Hulda Vilhjálmsdóttir fyrir sýninguna Valbrá í Kling og Bang.

Tengdar fréttir

Myndlist

Íslensku myndlistarverðlaunin – tilnefningar

Myndlist

Íslensku myndlistarverðlaunin sett á laggirnar

Myndlist

Færa vinnandi fólki í landinu listina