Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sigur Trump veldur engum áhyggjum

Mynd með færslu
 Mynd:
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra hefur sent Donald Trump heillaóskir með forsetaembættið. Hann væntir þess að samskipti Íslands og Bandaríkjanna verði áfram góð og hefur ekki áhyggjur af umdeildum kosningaloforðum Trumps. Sigurður Ingi segir niðurstöðurnar þó hafa komið sér nokkuð á óvart. 

SIJ: Miðað við það sem skoðanakannanir höfðu verið að benda til, en þær hafa svo sem gert það í öðrum kosningum líka. En ég hef auðvitað sent nýkjörnum forseta heillaskeiti í morgun. 

Og hvernig lýst þér á þetta? Nú virðast Íslendingar flestir bregðast frekar illa við þessum niðurstöðum. 

Það er auðvitað þannig að menn geta haft skiptar skoðanir á einstökum persónum, en ég á von á því að samskipti landanna verði jafn góð eins og verið hafa og verði það áfram, og hef engar væntingar til annars. 

Hefurðu enga trú á því að hann efni þessi umdeildu kosningaloforð sem hann lét falla í baráttunni? 

Því er ekki að neita að ýmsar yfirlýsingar í kosningabaráttunni hafa vakið einhverja undrun og verið sérstakar, en ég vænti þess að þegar menn setjast í embætti að þá sé alvaran meiri og menn þurfi að horfa í það umhverfi sem við búum við. Ég á von á því að samskipti ríkjanna verði eftir sem áður jafn góð og hingað til.

Þannig að þetta veldur þér engum áhyggjum?

Nei.  

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV