Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sigrún undirritar Parísarsamkomulagið

Sigrún Magnúsdóttir undirritar Parísarsamkomulagið fyrir Íslands hönd í New York 22. apríl 2016.
 Mynd: UNTV
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra skrifaði nú síðdegis undir Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum fyrir Íslands hönd. Um 150 þjóðarleiðtogar og aðrir forystumenn ríkja koma í dag saman í boði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í New York og undirrita Parísarsamkomulagið.

Til að loftslagssamkomulagið taki gildi þurfa 55 ríki, sem losa samanlagt að minnsta kosti 55% gróðurhúsalofttegunda, að staðfesta samkomulagið.

Margt er enn óvíst um framkvæmd samkomulagsins. Til dæmis frestaði hæstiréttur Bandaríkjanna loftslagsáætlun Obama Bandaríkjaforseta tímabundið í febrúar. Í þróunarríkjum eru byggingaráform um hundruð nýrra kolaorkuvera. Þá leita olíufyrirtæki nýrra olíulinda. Allt bendir til að markmið þjóða heims sem sett voru 2009 náist ekki, um að tryggja að lofthiti hækki ekki meira en tvær gráður yfir það sem hann var fyrir iðnbyltingu. Hitinn hefur þegar hækkað um eina gráðu með gríðarlegum afleiðingum. Ísskildir Grænlands og Suðurskautslandsins bráðna hratt. Annað vekur vonir um árangur eins og 60% aukning í sölu rafbíla á ári og fyrirheit Indverja og annarra um notkun sólarorku.