Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sigrún Geirsdóttir synti Eyjasund fyrst kvenna

23.07.2019 - 11:20
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Sigrún Þuríður Geirsdóttir varð í nótt fyrsta konan til að synda Eyjasund og fimmti Íslendingurinn til að synda þessa leið. Hún synti frá Vestmannaeyjum til Landeyjasands á fjórum og hálfri klukkustund, rúmlega ellefu kílómetra leið. Höfrungar fylgdu henni eftir fyrstu tvo tímana.

Sigrún lagði af stað frá Eiðinu á Heimaey kl 01.10 í nótt. Sundið gekk vel og veðurskilyrði voru hagstæð.

„Líðanin er bara nokkuð góð, ég er náttúrulega aðeins þreytt af því ég var að synda að nóttu til. Ég er náttúrulega bara svo ótrúlega glöð að þetta sé búið og þetta hafi tekist, þannig mér líður bara rosalega vel,“ segir hún. 

Sigrún er vön sjósundskona og synti yfir Ermarsundið fyrst íslenskra kvenna árið 2015. Hún hefur einu sinni farið þá leið ein og tvisvar í boðsundi. Hún hyggst þreyta sundið á ný í haust í hópi öflugra kvenna, segir hún. Með sundinu vilja þær vekja athygli á hnignandi lífríki sjávar vegna mengunar. Sundkonurnar safna áheitum fyrir umhverfissamtökin Bláa herinn. 

Sigrún segir að Eyjasundið hafi gengið vel í heildina. Það sé skemmtilegt en líka erfitt. „Austurfallið var aðeins að stríða mér þannig sjórinn var svolítið skrýtinn. Mér leið stundum eins og ég væri í þeytivindu. Í þessari þeytivindu þá varð mér svolítið flökurt þannig að ég átti alveg móment þar sem ég var að kasta upp og  svona, en ég harkaði bara af mér.“

Eyjólfur Jónsson sundkappi var frændi Sigrúnar en hann synti Eyjasundið fyrstur fyrir sextíu árum. Sigrún segist hafa viljað feta í fótspor hans og heiðra minningu hans með sundinu. 

Fylgdarfólk hennar á sundinu voru Haraldur Geir Hlöðversson úr Vestmannaeyjum, Jóhannes Jónsson, eiginmaður Sigrúnar, og Harpa Hrund Berndsen. Björgunarsveitin Dagrenning frá Hvolsvelli tók á móti henni þegar hún kom í land.

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn