Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sigrún Ágústsdóttir nýr forstjóri Umhverfisstofnunar

07.02.2020 - 13:53
Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.
 Mynd: Umhverfis- og auðlindaráðuney
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað Sigrúnu Ágústsdóttur í embætti forstjóra Umhverfisstofnunar. Sigrún hefur gegnt stöðu forstjóra frá því að Kristín Linda Árnadóttir, fyrrverandi forstjóri, lét af störfum í október.

Um þrír mánuðir eru síðan staða forstjóra var auglýst en tólf umsækjendur sóttu um stöðuna.  Umsóknarfrestur rann út 28. október. Valnefnd mat hæfni og hæfi umsækjenda og skilaði greinargerð þess efnis til umhverfis- og auðlindaráðherra. 

Sigrún hefur starfað í umhverfismálum í um 20 ár, þar af sem sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun frá árinu 2008 og var auk þess staðgengill forstjóra áður en hún var settur forstjóri í október. Þá starfað hún sem lögfræðingur hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu frá 2000 - 2008. Fyrir þann tíma starfaði hún sem lögfræðingur hjá Fangelsismálastofnun ríkisins. 

Sigrún hefur sinnt prófdómarastörfum og stundakennslu við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík meðfram starfi sínu, m.a. í umhverfisrétti og stjórnsýslu umhverfismála. Þá hefur hún verið samræmingaraðili Umhverfisstofnunar gagnvart IMPEL, samtökum umhverfisstofnana í Evrópu.