Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sigríður upplýsti Bjarna um aðkomu föður hans

14.09.2017 - 18:48
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, upplýsti Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra,í lok júlí að faðir hans hefði veitt Hjalta Sigurjóni Haukssyni meðmæli sín þegar Hjalti fékk uppreist æru í fyrra. Sigríður segist hafa fengið þessar upplýsingar frá embættismönnum innan úr ráðuneytinu og hún hafi talið rétt að láta forsætisráðherra vita. „Hann kom af fjöllum og þetta var honum þungbært en ég ætla að öðru leyti ekki að tjá mig fyrir hönd forsætisráðherra.“

Fréttin hefur verið uppfærð

Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem rætt var við Sigríði í beinni útsendingu.  Dómsmálaráðuneytið hafði þá ákveðið að nöfn þeirra sem vottuðu um góða hegðun Róberts Downeys yrðu ekki birt. RÚV kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem komst að þeirri niðurstöðu að ráðuneytinu bæri að birta þessar upplýsingar að hluta.

Sigríður var einnig gestur í kvöldfréttum RÚV þar sem hún sagði að henni hefði borist það til eyrna í óspurðum fréttum frá embættismönnum innan úr ráðuneytinu að faðir Bjarna væri meðal þeirra sem hefðu skrifað undir meðmælin fyrir Hjalta Sigurjón. Hún sagðist hafa upplýst Bjarna samdægurs um þetta en kvaðst ekki hafa greint öðrum frá þessum upplýsingum.

Sigríður sagðist hafa talið rétt að upplýsa Bjarna um þátt föður hans, meðal annars vegna þess að nafn Bjarna hefði dregist inn í umræðuna um uppreist æru Róberts Downeys.

Bjarni sendi síðan frá sér yfirlýsingu í byrjun ágúst eða nokkrum dögum eftir að dómsmálaráðherra upplýsti hann um aðkomu föður hans.  

Í yfirlýsingunni vildi Bjarni koma á framfæri leiðréttingu vegna viðtals sem fréttastofa RÚV tók við hann einum og hálfum mánuði áður. Viðtalið hafði verið tekið á þeirri forsendu að Bjarni hefði verið innanríkisráðherra þegar að Róberti Downey var veitt uppreist æra. 

Í yfirlýsingunni sagðist Bjarni hvorki hafa haft aðkomu að máli Roberts Downeys þegar það var leitt til lykta í innanríkisráðuneytinu né þegar það var kynnt í ríkisstjórn. Síðar var upplýst að Hjalti Sigurjón, sem faðir Bjarna vottaði, hefði fengið uppreist æru sama dag og Róbert.

Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna, sendi fjölmiðlum yfirlýsingu síðdegis í dag eftir að greint hafði verið frá því að hann hefði vottað Hjalta. Hjalti fékk fimm og hálfs árs fangelsisdóm árið 2004 fyrir gróf og ítrekuð kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni, sem þá var á aldrinum fimm til sautján ára. 

Í yfirlýsingunni baðst Benedikt afsökunar á því að góðverk við dæmdan mann hafi snúist upp í framhald harmleiks brotaþola.

 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV