Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sigríður segist ekki vera að fórna sér

13.03.2019 - 16:43
Mynd:  / 
Sigríður Andersen, sem vék í dag sem dómsmálaráðherra vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu, segist ekki vera að fórna sér fyrir ríkisstjórnina. Hún ætlar ekki að snúa aftur fyrr en Landsréttarmálið hefur verið klárað að fullu fyrir Mannréttindadómstólnum, þegar og ef dómur yfirréttar dómstólsins liggur fyrir. Hún hefur enga skoðun á því hver verður fyrir valinu sem arftaki hennar og treystir formanni Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum.

Sunna Valgerðardóttir, fréttamaður, ræddi við Sigríði í dómsmálaráðuneytinu eftir að hún tilkynnti að hún hefði ákveðið að víkja sem ráðherra dómsmála. 

Öll spjót hafa staðið á ráðherranum vegna Landsréttarmálsins svokallaða eftir að Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að skipan eins af dómurunum við Landsrétt væri brot á 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu. Áður höfðu bæði héraðsdómur og Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að vissulega hefðu lög verið brotin en dómararnir fjórir, sem teknir voru fram yfir fjóra sem metnir voru hæfari, væru ekki vanhæfir til að sitja í dómarasætinu.

Stjórnarandstaðan kallaði eftir afsögn hennar í gær og Landsréttur skellti í lás. Sigríður lýsti því engu að síður yfir í fréttum í gær, bæði á RÚV og í hádegisfréttum Bylgjunnar, að hún sæi enga ástæðu til að segja af sér.

Í dag sagðist hún hafa skynjað að menn hafi ætlað sér: „með réttu eða röngu, að láta persónu mína trufla þær ákvarðanir og þau skref sem þarf að taka í dómsmálaráðuneytinu. Ég ann dómsmálunum meira en svo að ég læt það líðast.“ Sigríður sagðist ekki hafa verið beitt neinum þrýstingi af Vinstri grænum en hún hafi skynjað að þetta væri snúið mál.  Alþingi mætti líka vera í sárum því dómur MDE væri líka áfellisdómur yfir því líka. „Ég vildi leggja mitt á vogarskálarnar til þess að allir gætu komist undan því að ekki væri grafið undan réttarríkinu.“

Sigríður fór yfir dóm MDE með bæði forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins. Hún vildi þó ekki upplýsa um trúnaðarsamtöl sín. Hún ítrekaði að hún hefði ekki verið beitt þrýstingi en hefði skynjað að það gæti reynst mörgum erfitt að vinna úr þessum dómi og hún ætli ekki að láta persónu sína trufla úrvinnslu viðkomandi. Hún kvaðst ekki vera að fórna sér fyrir ríkisstjórnarsamstarfið en það væri mikilvægt að hún fengi vinnufrið. 

Sigríður ræddi það á blaðamannafundinum í dag að dómur MDE hefði komið henni og öðrum sérfræðingum innan ráðuneytisins á óvart. Það kæmi því ekki neitt annað til greina en að skjóta dóminum til yfirréttarins en ekki væri vitað hversu langan tíma það tæki. „En ég er að víkja út af þessum dómi [dómi MDE].“ Engu að síður vildi hún vekja athygli á ummælum deildarforseta hjá Mannréttindadómstólnum í séráliti tveggja dómara,  um að meirihluti dómstólsins skyldi hafa látið pólitíska umræðu hér á landi hafa áhrif á niðurstöðuna. „Mér finnst það alvarlegt og til umhugsunar fyrir dómstólinn.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV