Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Sigríður Björk: Verið að draga mig niður

22.11.2014 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum og núverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segist hafa sent gögn á þáverandi aðstoðarmanni innanríkisráðherra daginn eftir lekann vegna þess að hann sagðist vera að vinna að málinu fyrir ráðuneytið.

Hún segist ekki hafa gert nein mistök í málinu, allt hafi verið gert eftir eðlilegum leiðum. Hún eigi 18 ára flekklausan feril að baki og það sé verið að draga hana niður með málinu.

Sigríður Björk segist ekki hafa haft hugmynd um að Gísli Freyr hafi verið sá sem lak upplýsingunum þegar hann hringdi í hana í tvígang um morguninn 20. nóvember og bað hana um gögn. „Þegar ég sendi honum þessi gögn þá er það samantekt í máli sem verið er að vinna í ráðuneytinu og nota bene, innanríkisráðherra er æðsti yfirmaður lögreglu. Ef ráðuneytið biður um eitthvað þá fær ráðuneytið það sem það biður um. Í fyrsta lagi vissi ég ekki að hann hefði ekki rétt á að fá þetta, hann hringir fyrir ráðherra. Hann hringir fyrir ráðuneytið,“ segir Sigríður Björk.

Ekkert óvenjulegt að senda gögn

Hún segir Hönnu Birnu ekki hafa beðið um gögnin. „Nei, hann [Gísli Freyr] segir að þetta sé mál sem verið er að vinna í ráðuneytinu. Hann óskar eftir gögnum. Við lítum bara á aðstoðarmann sem fulltrúa innanríkisráðuneytisins og fulltrúa ráðherra. Málið var í meðferð inni í ráðuneyti og það voru fleiri en einn að vinna í málinu inni í ráðuneytinu. Ég hafði enga ástæðu til að ætla að Gísli Freyr væri ekki hluti af þeim hópi.

Þegar ég er að senda mínar upplýsingar þá sendi ég þær á grundvelli 14. greinar laga um stjórnarráð íslands, númer 115/2011, þar getur ráðherra krafið stjórnvald sem heyrir undir yfirstjórn hans um hverjar þær upplýsingar og skýringar sem er þörf á til að sinna hlutverki sínu og svo framvegis. Þagnarskyldan yfirfærist. Við höfum oft sent greinargerðir um ýmis mál inn í ráðuneytið, allir í kerfinu gera það. Það vissi enginn á þessum tíma að aðstoðarmaður ráðherra hefði gerst sekur um brot á þagnarskyldu. Hvernig átti okkur að gruna það?“

Gísli Freyr Valdórsson í dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur ásamt lögmanni sínum.

Hringdi bara og fékk sent

Aðspurð hvort Gísli Freyr hafi ekki þurft að gera annað en að biðja um gögnin til að fá þau svarar Sigríður: „Hann hafði hringt um morguninn og sagt að það væri mál í vinnslu og hann sem sagt já hann má óska eftir upplýsingum fyrir ráðuneytið.

Gerði hann þetta með einhverjum formlegum hætti? 
„Ég held ekki, ég held að hann hafi bara hringt og beðið um þetta,“ segir Sigríður Björk. „Það er mjög oft sem fara símtöl á milli það er ekkert alltaf formlegar fyrirspurnir á milli ráðuneytis og undirstofnana.“

Aðspurð hvort ekki þurfi að fara eftir formlegum ferlum þegar um svona trúnaðargögn sé að ræða og fá formlega beiðni frekar en símtal frá aðstoðarmanni svarar hún:  „Ég held að aðstoðarmenn hafi bara oft beðið um upplýsingar í einstökum gögnum.“ Og hvort aðstoðarmenn hafi rétt á slíku:

„Svo er það bara eitthvað sem þarf að skoða, við stóðum í þeirri trú að þetta væru upplýsingar sem ráðuneytið þyrfti á að halda og það væri verið að vinna þessi mál í ráðuneytinu sem var verið að gera.“

Segist ekki hafa talað við Hönnu Birnu

Sigríður Björk segist ekki minnast þess að hafa talað við Hönnu Birnu í síma daginn sem gögnunum var lekið eða daginn eftir. Hún hringdi í Gísla Frey snemma morguns 20. nóvember, eftir lekann, úr síma á heimilinu. Aðspurð hvers vegna hún hringdi í hann úr þessum síma um morguninn segir Sigríður Björk: „„Vegna þess að hann reyndi að hringja í mig kvöldið áður og ég svaraði ekki.

Hann reyndi að hringja í þig úr sínum persónulega síma í þinn persónulega síma kvöldið áður?

Ég held að það hafi verið þannig en sko eins og ég segi þetta er meira en ár síðan ég tala við hann eftir lekann.“

Þegar Gísli Freyr hringir þarna í þig tvisvar sinnum sama daginn, þarna um morguninn, og var að sýna þessu máli sérstakan áhuga. Þú sendir á hann prívat og persónulega þarna um kvöldið þessi gögn, datt þér aldrei í hug að hann væri sá sem lak þessum upplýsingum eftir að lögreglurannsóknin á ráðuneytinu hófst?

Nei, enda skil ég ekki hvers vegna hann ætti að vera að biðja um þessar upplýsingar eftir á." 

Þegar öll spjót fóru að beinast að honum í rannsókninni, datt þér þá aldrei í hug að þessi símtöl ykkar á milli gætu hafa verið svolítið mikilvægar upplýsingar? Léstu lögregluna á höfuðborgarsvæðinu vita að þið hefðuð átt í samskiptum og þú látið hann hafa þessi gögn?

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með allar upplýsingar um okkar samskipti.

Ekki með þær upplýsingar að hún sendi honum þessa greinargerð.

Hvernig veist þú það?“

Af því að það eru ekki hluti af gögnum málsins. 

„Það getur bara verið að það hafi ekki ratað í gögn málsins, ég veit ekkert um það.“

Átján ára flekklaus ferill

„Það er bara verið að stilla þessu svona upp eftir á. Ég er með átján ára flekklausan feril. Þið eruð að draga mig niður ég hef ekkert gert ég sendi umbeðin gögn til nýs ráðherra eða ráðuneytis sem er minn yfirmaður þannig að það er nú bara staðan í málinu.“

[email protected]