Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sigmundur flytur lögheimili sitt til Akureyrar

18.12.2017 - 16:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, hefur flutt lögheimili sitt og fjölskyldu sinnar til Akureyrar. Hann er nú skráður í húsi í eigu fjölskyldu Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, þingmanns Miðflokksins. Fyrri lögheimilisskráning var kærð skömmu eftir kosningar. 

Sigmundur Davíð flutti lögheimili sitt á eyðibýlið Hrafnabjörg III í Jökulsárhlíð fyrir alþingiskosningarnar 2013. Jónas Guðmundsson bóndi gerði húsið síðan upp og hefur meðal annars leigt það út til orlofsdvalar. Sigmundur hefur hins vegar aldrei búið þar heldur á höfuðborgarsvæðinu. 

Samkvæmt Þjóðskrá er Sigmundur Davíð nú skráður til heimilis í Aðalstræti 6, í innbænum á Akureyri. Húsið er í eigu Gerðar Jónsdóttur og Árna Friðrikssonar. Gerður er fyrrverandi formaður Landssambands Framsóknarkvenna. Þau eru jafnframt foreldrar Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, sem skipaði 2. sæti á lista Miðflokksins í Norðausturkjördæmi í síðustu kosningum og var kjörin á þing. Húsið, sem var byggt um 1845, er eitt af elstu húsum Akureyrar. Undanfarin ár hefur enginn búið í húsinu. 

Pétur Einarsson, sem skipaði annað sæti á lista Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi, kærði lögheimilisskráningu Sigmundar Davíðs eftir kosningar. Í lögum segir að lögheimili skuli vera sá staður þar sem menn hafa fasta búsetu. Bæjarráð Fljótsdalshéraðs ákvað að aðhafast ekkert vegna kærunnar, einkum vegna þess að sérstök lagaákvæði gildi um búsetu þingmanna og taldi bæjarráð ekki hlutverk sveitarfélagsins að blanda sér í málið. Talsvert fleiri landsbyggðarþingmenn en Sigmundur Davíð eru með lögheimili heima í kjördæmi en búa ekki þar nema í mesta lagi í fáeinar vikur á ári. 

Sigmundur skipaði efsta sæti á lista Miðflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir nýafstaðnar kosningar. Miðflokkurinn hlaut 18,6% atkvæða í kjördæminu og tvo þingmenn, Sigmund Davíð og Önnu Kolbrúnu. 

Ekki náðist í Sigmund Davíð við vinnslu fréttarinnar og því er ekki vitað hvort hann hyggst búa í húsinu. 

 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV