Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sigmundur birtir skattaupplýsingar

11.05.2016 - 05:48
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Upplýsingar um eignir og skattgreiðslur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, og Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur eiginkonu hans frá árinu 2007 til 2015 eru birtar í Morgunblaðinu í dag og á heimasíðu Sigmundar. Sigmundur hvetur aðra kjörna fulltrúa til þess að birta ámóta upplýsingar.

Að sögn Morgunblaðsins tók KPMG saman skattgreiðslur þeirra hjóna af aflandsfélaginu Wintris sem er í eigu Önnu Sigurlaugar. Samkvæmt því hefur hún greitt samanlagt rúmar 174 milljónir í fjármagnstekjuskatt af félaginu frá árinu 2007.

Með upplýsingunum til Morgunblaðsins fylgdi bréf frá Sigmundi Davíð sem hann birtir einnig á heimasíðu sinni. Þar segir hann að alltaf hafi verið gert grein fyrir Wintris, skráningarlandi þess og eignum á skattframtali og Anna Sigurlaug hafi „ætíð greitt fullan skatt af eignum sínum og tekjum í samræmi við íslensk lög." Horft var í gegnum félagið við framtalsgerð eins og það hafi aldrei verið til og eignir þess skráðar sem bein eign Önnu Sigurlaugar segir í bréfinu.

Hann segir Önnu Sigurlaugu ekki hafa hagnast á því að geyma fjármagn sitt erlendis. „Ljóst má vera að hún hefði hagnast á því að geyma peninga í verðtryggðum íslenskum hávaxtakrónum eða íslenskum hlutabréfum," segir í bréfi Sigmundar að sögn Morgunblaðsins.

Sigmundur Davíð sagði af sér embætti forsætisráðherra 5. apríl eftir umfjöllun um aflandsfélagið Wintris. Þar kom í ljós að hann hafði verið annar eigenda félagsins um tíma og hefði prókúru yfir því. Einnig kom í ljós að Wintris átti kröfur í þrotabú íslensku bankanna.