Siglfirðingar þreyttir á vetrartíð og lokunum

18.02.2020 - 20:59
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Siglfirðingar eru margir hverjir orðnir þreyttir á vetrartíð og sífelldum lokunum á vegum. Á síðustu tveimur mánuðum hafa hafa lokaðir vegir og snjóflóðaviðvaranir verið nær daglegt brauð.

Mikið rask á samgöngum

Frá því aðventustormurinn skall á í desember hefur hver lægðin á eftir annarri dunið á landinu. Þessu hafa Siglfirðingar fengið að finna fyrir en samgöngur til og frá bænum hafa raskast mikið. Staðarmiðillinn Siglfirðingur.is vakti athygli á því í vikunni að frá 10. desember hefur Siglufjarðarvegur verið lokaður 22 sinnum og Ólafsfjarðarvegur 13 sinnum. Auk þessa hefur oft verið lýst yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu.

Íbúar orðnir þreyttir

Íbúar eru margir hverjir orðnir þreyttir á tíðinni. 

„Þetta er búið að vera erfitt en svona er bara að búa fyrir norðan,“ segir Jóhann Ottesen. 

Svala Júlía Ólafsdóttir, siglfirðingur segir aðkomumenn kvarta einna mest undan tíðinni. „Svona ekta Siglfirðingar eru alveg sama um þetta, það er kannski fólk sem kemur að sunnan og er búið að búa hérna styttra sem er kannski ekki alveg sátt við þetta,“ segir Svala.

Óstöðugt veður

Sveinn Zóphoníasson, verktaki hjá Vegagerðinni segir tíðarfarið undanfarnar vikur hafa verið sögulega slæmt . 

„Það hefur gengið vonum framar, miðað við hvernig veðrið hefur látið. Það er búið að vera mjög óstöðgut.“

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi