Sígilt jólalag Mariuh Carey á toppnum í 25 ár

Mynd með færslu
 Mynd:

Sígilt jólalag Mariuh Carey á toppnum í 25 ár

21.11.2019 - 10:49
Bandaríska söngkonan Mariah Carey fagnar um þessar mundir 25 ára afmæli hennar þekktasta lags, All I Want for Christmas Is You. Lagið er fyrir löngu orðið sígilt um jólahátíðina og hefur tryggt söngkonunni tekjur sem eru nægar til að vinna aldrei handtak aftur.

Þú hefur heyrt það. Það eru engar líkur á öðru. Lagið sem hefur tröllriðið jólunum undanfarinn aldarfjórðung. All I Want for Christmas Is You kom út 29. október 1994 og sló strax í gegn. Lagið hefur náð efsta sæti vinsældarlista í 22 löndum, þar á meðal á Íslandi en enginn gat þó séð fyrir að enn, 25 árum síðar, yrði það enn vinsælasta jólalagið og einn söluhæsti síngúll allra tíma.

Á síðasta ári, jólin 2018, sló lagið hvert metið á fætur öðru þegar það var efst á vinsældarlistum í Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Danmörku og Frakklandi. Á jóladag í fyrra sló lagið jafnframt met Spotify yfir mest spilaða lagið á einum degi þegar hlustendur tóku sig til og spiluðu það 10,8 milljón sinnum. 

Í Bandaríkjunum hefur lagið komist inn á Billboard Hot 100 vinsældarlistann á hverju einasta ári frá útgáfu þess. Snemma þessa árs, rétt eftir áramót, varð lagið svo annað jólalagið í sextíu ára sögu vinsældarlistans til að ná á topp fimm listann, þegar það sat í þriðja sæti listans. Aðeins The Chipmunk song (Christmas Don't Be Late) hefur náð hærra en það sat í efsta sæti listans jólin 1958. 

Í fjölmiðlum hefur Mariah jafnan hlotið nafnbótina drottning jólanna (e. Queen of Christmas) sem hún hefur af mikilli auðmýkt hafnað:

„Ég get ekki tekið við því nafni því mér finnst það of mikið. Ég þakka þeim auðmjúk fyrir og ég bý sannarlega yfir stórkostlegri ást til hátíðarinnar, þetta er sannarlega besti tími ársins.“

Besti tími ársins fyrir Mariuh, sannarlega því hver einustu jól byrja peningarnir að safnast upp. Árið 2017, áður en hennar helsta metár 2018 gekk í garð, hafði lagið halað inn 60 milljónum bandaríkjadala, sem jafngildir tæplega sjö og hálfum milljarði króna. Skal nú engan undra að Mariah elski jólin. 

via GIPHY

Galdurinn að baki All I Want for Christmas Is You er margvíslegur. Þó lagið sé samið árið 1994 er það samið í svokölluðu 32 takta AABA strúktúr sem var sérstaklega vinsæll á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar. AABA lögum er skipt í fjórar lotur sem hver um sig er átta taktar þar sem B-ið stendur fyrir brúna sem tengir á milli sams konar laglínur í A-inu. Vinsældir lagsins liggja meðal annars í þessari uppbyggingu því hún lætur lagið hljóma kunnuglega og það fær á sig þennan sígildan blæ. Ansi margir hafa jú í gegnum tíðina talið að lagið sé ábreiða Mariuh Carey af eldra jólalagi en svo er ekki. Lagið þykir þvert á móti vera staðfesting á tónsmíðahæfileikum Carey. 

Lag fyrir ástfangið fólk

Það er þessi sígildi hljómur sem á stóran hlut í vinsældum lagsins. Önnur jólalög sem nefna má og eru byggð upp á sama AABA hátt eru Snæfinnur snjókall og Rúdolf með rauða trýnið. All I Want for Christmas Is You er þó ekki samið fyrir börn. Það er fullorðins jólalag, og ástarlag í ofanálag, og þar liggur annar lykilinn að velgengninni. Jólasveinninn er hvergi nálægur, það þarf enginn að haga sér vel og börnin eru víðsfjarri. Þetta er ekki fjölskyldulag, þetta er lag fyrir ástfangið ungt fólk. 

Textinn í All I Want for Christmas Is You sneiðir svo fimlega fram hjá öllum flækjum sem hlustendur kynnu að hafa. Hann er sagður í fyrstu persónu frá söngkonunni og fjallar um elskhuga sem hún vill svo gjarnan verja jólunum með. Elskhuginn er þó aldrei nefndur á nafn eða persónugerður á neinn hátt og sannarlega ekki kyngerður. Þó Mariah Carey sé opinberlega gagnkynhneigð kona er ekkert í laginu sem segir að sá sem sungið sé til sé karl. Þannig getur fólk af öllum kynjum, sem yfir höfuð er skotið í einhverjum, sungið með og fundið sig í texta lagsins. 

Önnur mikilvæg breyta lagsins er að það er á engan hátt trúarlegt. Þó orðið christmas komi vissulega fyrir er hvergi minnst á fæðingu frelsarans eða önnur trúarstef sem mörg önnur jólalög innihalda og myndu gera lagið fráhrindandi fyrir marga. 

Sígild kvikmynd með sígildu lagi

En það er annað sem hefur tryggt laginu All I Want for Christmas Is You toppinn svo rækilega. Breska kvikmyndin Love Actually hefur fyrir löngu orðið fastur liður hjá ansi mörgum, þó sérstaklega þúsaldarkynslóðinni, fyrir jólin. Ef þú hefur heyrt All I Want for Christmas Is You eru allar líkur til þess að þú hafir séð kvikmyndina svo hér leyfum við okkur aðeins að skemma fyrir. 

via GIPHY

Kvikmyndin Love Actually segir frá lífi nokkurra persóna skömmu fyrir jól sem öll tengjast með einum eða öðrum hætti. Liam Neeson leikur syrgjandi stjúpföður hins unga Sam sem er skotinn í bekkjarsystur sinni Joönnu. Til stendur að Joanna syngi All I Want for Christmas Is You á jólaskemmtun skólans og til þess að ganga í augu hennar leggur Sam nótt sem nýtan dag við að læra lagið á trommur svo hann geti spilað með og heillað hana upp úr skónum. Planið gengur upp og hinir tíu eða ellefu ára gömlu elskendur ná kossi á kinn í lok myndarinnar. Allt er gott sem endar vel. 

En lagið spilar algjöra lykilrullu í einum af hápunktum myndarinnar þegar aðalpersónurnar eru meira og minna allar komnar saman á jólaskemmtuninni og Joanna, sem er bandarísk stúlka í þessum breska skóla, stelur algjörlega senunni með flutningi sínum á laginu. 

Lagið, sem hafði orðið stórkostlega vinsælt þegar það kom út árið 1994, gekk þar í endurnýjun lífdaga þegar kvikmyndin kom út árið 2003 og saman urðu þau óaðskiljanleg klassík. 

Tryggt á toppnum

Á 25 ára afmæli lagsins þarf enginn að efast um annað en að það sé komið til að vera. Mariah Carey er að hefja stutt tónleikaferðalag um Bandaríkin á morgun, 22. nóvember, sem er eingöngu lagt í í tilefni afmælis þessa vinsæla jólalags. Flestir tónleikarnir fara fram í Las Vegas en Mariah mun einnig koma fram í Atlantic City, Washington, Uncasville, Boston og New York. Jólaþyrstir Bandaríkjamenn geta því fagnað þessu aldarfjórðungs afmæli rækilega með söngkonunni. 

Og vinsældir lagsins eru hvergi á leiðinni að dvína. Frá 1. október fóru streymi lagsins á Spotify upp um 99% frá sumarmánuðum og búast má við að streymum fjölgi dag frá degi þar til þau ná hámarki á jóladag, 25. desember. 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Mariah Carey slær öll met á Spotify