Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Siðrof þegar hætt var að kenna kristinfræði

28.10.2019 - 16:26
Mynd með færslu
sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.  Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Þeim Íslendingum sem treysta þjóðkirkjunni hefur fækkað um helming frá því um aldamót. Þriðjungur þjóðarinnar treystir nú kirkjunni. Þetta kemur fram í þjóðarpúlsi Gallups sem kynntur var í dag. Biskup Íslands telur að hluta til megi rekja minna traust til kirkjunnar til þess siðrofs sem hún telur að hafi orðið þegar hætt var að kenna kristinfræði í grunnskólum landsins.

Um þriðjungur Íslendinga ber mikið traust til þjóðkirkjunnar. Það er svipað hlutfall og í fyrra en þá minnkaði traustið frá fyrri mælingum. 
Biskup Íslands segir margt hafa breyst frá aldamótum þegar traust þjóðarinnar á kirkjunni mældist yfir 60%. Þar séu bæði hugarfarslegar og tæknilegar ástæður að baki. Allt félagsstarf í landinu hafi minnkað samhliða aukinni notkun samfélagsmiðla og meira framboði á afþreyingu. Kirkjan sé að laga sig að þessum breytingum. Svo hafi hún líka upp á ýmislegt að bjóða sem ekki finnist annars staðar eins og sálgæslu.

Hvaða áhrif heldur þú að það hafi haft á þessa þróun að kristinfræði er ekki lengur kennd í grunnskólum landsins? „Það hefur orðið siðrof held ég. Fólk áttar sig ekki á því hvaðan hlutirnir koma sem við viljum gjarnan lifa eftir og starfa eftir. Það náttúrulega segir sig sjálft að ef að börnin læra ekki heima hjá sér til dæmis biblíusögurnar eða í skólanum þá verður framtíðin þannig að þau vita ekki að þetta er til. Ef maður veit ekki að eitthvað er til þá skiptir það mann engu máli, fyrr en kannski allt í einu að eitthvað kemur upp á.“

Traust til biskups Íslands hefur sveiflast mikið frá því fyrir aldamót og mælist nú 19% en það er 5% meira en í fyrra. 

„Ég eins og aðrir í kirkjunni, við erum bara að reyna að gera það besta sem við getum. Og auðvitað er það þannig að það sést ekkert allt sem við erum að gera. Það sést bara toppurinn á ísjakanum eins og sagt er en þetta er greinilegt merki um að við verðum að líta í eigin barm bæði ég sjálf sem biskup og allir þjónar kirkjunnar. Það er alla vega rými fyrir bætingu og það er það jákvæða við þetta.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV