Frá „Bris“, hefðbundinni athöfn Gyðinga, þar sem sveinbörn eru umskorin, átta dögum eftir að þau koma í heiminn. Mynd: EPA

Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.
Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi lýsir yfir stuðningi við frumvarp þar sem bann er lagt við umskurði drengja og segir að um „alvarlegt og óafturkræft inngrip“ að ræða, sem sé óásættanlegt. Þetta kemur fram í umsögn sem félagið sendi Alþingi vegna umdeilds frumvarps um bann við umskurði drengja.
Í umsögninni hvetur Siðmennt þingmenn á Alþingi að samþykkja frumvarpið; umburðarlyndi gagnvart siðvenjum og trúarbrögðum sé góðra gjalda verð, en þegar komi að slíku inngripi sem umskurður er, þá sé það skýrt að réttur barnsins skuli vera siðum og trú yfirsterkari, segir í bréfi Siðmenntar.
Samtökin benda á að þegar Alþingi samþykkti bann gegn umskurði kvenna hafi sterk orð eins og limlesting og líkamsmeiðing verið notuð; nú heyrist raddir um að sýna siðavenjum og trú það umburðarlyndi að banna ekki umskurð drengja. „Þar sem um er að ræða alvarlegt og óafturkræft inngrip, er óásættanlegt að börn undir lögaldri séu umskorin.“