Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Síðasta Súmötru-nashyrningskýrin í Malasíu öll

24.11.2019 - 13:29
Erlent · Asía · Malasía · Náttúra
In this Aug. 18, 2019, photo, Sabah Deputy Chief Minister Christina Liew, right, looks at rhino “Iman” in cage in eastern Sabah state . The Sumatran rhinoceros has become extinct in Malaysia, after the last of the species in the country succumbed to cancer. The Wildlife Department in eastern Sabah state on Borneo island says the rhino died of natural causes Saturday, Nov. 24, due to shock in her system.(Sabah Deputy Chief Minister’s Office via AP)
 Mynd: AP
Enn fækkar Súmötrunashyrningum því nashyrningskýrin Iman er öll. Hún var síðasti súmötrunashyrningurinn í Malasíu en talið er að um hundrað dýr séu enn villt á Súmötru. Krabbamein varð Iman að aldurtila, hún var tuttugu og fimm ára gömul og fönguð á Borneo fyrir fimm árum. Í vor drapst nashyrningstarfurinn Tam á Borneo. Tilraunir til að leiða saman Tam og nashyrningskýr í dýragörðum höfðu ekki borið ávöxt.

Stoppa á Iman upp, líkt og gert var við Tam. Horn nashyrninga eru talin búa yfir miklum krafti og seljast fyrir metfé í Vítetnam og Kína. Skógarhögg í Malasíu og veiðiþjófar hafa gengið svo nærri Súmötrustofninum, að aðeins örfá dýr eru eftir. Fimm tegundir nashyrninga finnast í heiminum, tvær í Afríku og þrjár í Asíu. Súmötrunashyrningar eru minnstir.

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV