Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Síðasta grindhvalahræið í Garðskagafjöru urðað

05.08.2019 - 12:37
Mynd með færslu
Um 50 grindhvalir strönduðu við Útskálakirkju í Garði um verslunarmannahelgina. Um 30 þeirra komust aftur á haf út en 20 dýr drápust í fjörunni. Mynd: Víkurfréttir - Hilmar Bragi
Búið er að urða eða sökkva öllum grindhvalahræjunum í Garðskagafjöru í Garði. Björgunarsveitin Ægir hefur staðið í ströngu síðustu daga og sökkt yfir ellefu hræjum. Eitt var grafið í sandinn. Bergný Jóna Sævarsdóttir staðgengill bæjarstjóra Suðurnesjabæjar sagði fyrir hádegisfréttir að verkefnið væri erfitt en vonast til að það klárist í dag áður en lykt fer að gjósa úr hræinu yfir Garð.

„Þetta gekk ágætlega. En samt hægar en við vorum að vonast til. Þannig að nú er enn þá eitt hræ eftir í fjörunni sem við vonumst til að geta dregið aftur út í dag. Þetta er búið að vera erfitt verkefni og mannskapurinn ekki eins mikill og er venjulega,“ segir Bergný Jóna. 

Uppfært klukkan 12:45: Ákveðið var að urða síðasta dýrið þar sem það lá í fjörunni við Garðskagavita. Það hafði farið á flot þegar flæddi að og strandað aftur við vitann, þar sem hræið var grafið í sandfjöruna. Það hefði ekki verið hægt þar sem hvalirnir strönduðu upphaflega við Útskálakirkju.

Sveitarfélagið er ábyrgt fyrir að fjarlægja þá hátt í tuttugu hvali sem ekki tókst að bjarga og hafa rotnað í fjörunni síðustu tvo daga. Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem hvalavaða leitar á land, líklega á eftir makríltorfu. Hvalirnir hafa vakið mikla athygli og fólk hefur gert sér ferð í fjöruna til að virða þá fyrir sér en svæðið er girt af vegna sýkingarhættu. 

„Þegar við hættum í gær var ekki farið að lykta en gasmyndun er sannarlega orðin meiri en í upphafi, hún eykst og rotnun er hafin þannig að nú er bara tímaspursmál að koma þessu úr fjörunni. Við viljum ekki hafa þetta mikið lengur,“ segir Bergný Jóna. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV