Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Siðareglur jákvætt skref en ekki nóg

23.02.2016 - 08:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Birgitta Jónsdóttir telur að lögfesta þurfi margt af því sem fram kemur í þingsályktunartillögu um siðareglur þingmanna. Hún segir reglurnar jákvætt skref en setja þurfi skýrari ramma um hagsmunaárekstur þingmanna, með lögum. Hún ætlar að leggja fram frumvarp þess efnis.

Birgitta er eini nefndarmaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem samþykkti þingsályktunartillögu um siðareglur þingmanna með fyrirvara. „Betra væri ef margt í þessum reglum væri hreinlega lögfest,“ segir Birgitta í svari til fréttastofu.

„Það er ekki nóg að hafa aðeins siðareglur til að taka á hagsmunaárekstrum. Annars er þetta bara gott mál sem fyrsta skref, en vona að þingmenn samþykki líka frumvarpið mitt sem setur skýrari og fastari ramma með raunverulegri ábyrgð þegar um hagsmunaárekstra er að ræða,“ segir Birgitta en hún hyggst leggja fram að nýju frumvarp, nú með síðari breytingum, um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis og almennum hegningarlögum. 

Á meðal þeirra breytingatillagna sem Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur lagt til um siðareglur þingmanna er að þeir þyrfi að staðfesta með undirskrift að þeir hafi kynnt sér reglurnar.