Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Siðanefnd búin að afgreiða Klausturmálið

22.07.2019 - 16:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Siðanefnd Alþingis hefur klárað álit sitt um Klausturmálið svokallaða og sent forsætisnefnd. Þeir sex þingmenn sem náðust á upptöku hafa fengið álitið til umfjöllunar og hafa frest fram í lok þessarar viku til að skila andsvörum. Forsætisnefnd klárar síðan líklega málið í næstu viku og verður álitið þá gert opinbert.

Það reyndist Alþingi erfitt að taka á Klausturmálinu eftir að það kom upp í lok síðasta árs. Þá var hljóðupptöku af samtali sex þingmanna á veitingastaðnum Klaustri lekið til fjölmiðla þar sem heyra mátti þingmenn fara niðrandi orðum um samstarfsmenn sína á þingi og aðra í stjórnmálum, meðal annars Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra. Hún lýsti þingmönnunum síðar sem ofbeldismönnum í viðtali við Kastljós. 

Forsætisnefnd þingsins lýsti sig vanhæfa til að fjalla um málið og voru þau Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, og Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kosin til að gegna stöðu varaforseta tímabundið. Þau voru í hópi fárra þingmanna sem höfðu ekki tjáð sig um málið. 

Steinunn og Haraldur óskuðu eftir ráðgefandi áliti siðanefndar í febrúar þar sem þau vildu vita hvort siðareglur þingmanna ættu við það sem gerðist á Klaustri. Siðanefndin komst að þeirri niðurstöðu í mars að ummæli og hegðun þeirra þingmanna sem þar náðust á upptöku féllu undir gildissvið reglnanna. Þingmenn væru opinberar persónur og háttsemi þeirra hefði átt sér stað á opinberum vettvangi. Siðanefndin tók þó ekki afstöðu til þess hvort siðareglur hefðu verið brotnar. Einn úr siðanefndinni skilaði sératkvæði.

Hin sérstaka forsætisnefnd tíndi síðan til ummæli sem höfðu birst í fjölmiðlum, sendi þingmönnunum sex og gaf þeim tækifæri til að tjá sig um þau. Þegar þau svör bárust var málið sent til siðanefndar Alþingis sem nú hefur klárað álit sitt og sent forsætisnefnd. Þingmennirnir hafa frest fram í lok  þessarar viku til að koma á framfæri andsvörum og segir Haraldur Benediktsson í samtali við fréttastofu að málið verði klárað í næstu viku og álitið þá gert opinbert. Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins og einn þeirra sem var á upptökunni, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað þar sem slíkt væri ekki tímabært.

Klausturmálið vakti mikla athygli en fjórir þingmenn, þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Bergþór Ólason,  kvörtuðu til Persónuverndar og töldu að brotið hefði verið gegn friðhelgi þeirra. Þau kröfðust þess að rannsakað yrði hver hefði staðið fyrir upptökunni og vildu meðal annars frá upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum um greiðslur inn á reikning Báru Halldórsdóttur sem tók samtal þeirra upp. Persónuvernd hafnaði þeirri beiðni.

Persónuvernd komst síðan að þeirri niðurstöðu að upptakan á samtali þingmannanna á Klaustri hefði verið brot á lögum en ákvað að sekta ekki Báru. Persónuvernd horfði þar meðal annars til kringumstæðna í málinu og dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu sem hefur komist að þeirri niðurstöðu að stjórnmálamenn njóti minni einkalífsverndar en aðrir. 

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma þar sem reynir á siðareglur þingmanna. Fyrr í sumar staðfesti forsætisnefndin álit siðanefndar í máli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, vegna ummæla hennar um Ásmund Friðriksson. Siðanefndin komst að þeirri niðurstöðu að Þórhildur Sunna hefði með orðum sínum brotið gegn siðareglum Alþingis.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV