Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Síbería brennur

11.08.2019 - 04:27
Erlent · Hamfarir · Asía · Rússland · Evrópa
epa02275257 A photograph made available on 06 August 2010 shows Wildfire burning a forest near the village of Golovanovo (270 km south-east of Moscow), Ryazan region, Russia, 05 August 2010.  EPA/IGOR KHARITONOV
 Mynd: epa
Mynd með færslu
Gervihnattamynd tekin í liðinni viku sýnir vel reykjarkófið sem leggur af eldunum í Síberíu Mynd: epa
Skógar- og gróðureldar loga nú á nær 10.000 ferkílómetrum lands í Krasnoyarsk-héraði í Síberíu. Rússneska fréttastofan Tass greinir frá þessu. Í tilkynningu frá yfirvöldum segir að 118 eldar brenni í héraðinu. Þeir séu þó allir fjarri mannabyggð og ógni því hvorki mönnum né mannvirkjum með beinum hætti. Mikinn reyk leggur þó af eldunum, sem berst langar leiðir og veldur fólki miklum og heilsuspillandi óþægindum.

Haft er eftir íbúa í smábæ um 100 kílómetra frá næsta skógareldi að þar í bæ eigi fólk hreinlega erfitt um andardrátt því engin leið sé að forðast reykinn. „Bæði börn og fullorðnir hósta linnulaust,“ segir íbúinn, sem ekki er nafngreindur.

Mynd af eldunum með yfirskriftinni „Síbería brennur“ fer sem eldur í sinu um samfélagsmiðla, og segja yfirvöld að þurrkar og óvenjumikill hiti ásamt hvössum vindi og eldingum séu helstu orsakir eldanna.

Þótt skógareldar séu árviss viðburður í Síberíu hafa þeir verið mun meiri en venjulega í sumar og reykinn leggur yfir fjölda bæja og borga, þar á meðal héraðshöfuðborgina Krasnoyarsk. Um 1.300 slökkviliðsmenn berjast við að hemja og slökkva eldana og hvort tveggja flugvélar og þyrlur eru notaðar við slökkvistarfið.

Það dugar þó skammt og kvarta héraðsbúar undan því að yfirvöld geri ekki nóg til að slökkva eldana. Sú afstaða styrktist enn í júlí, þegar héraðsstjóri Krasnoyarsk lýsti því yfir að það væri „tilgangslaust og jafnvel skaðlegt“ að slökkva skógarelda. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV